Íslenski boltinn

Arna Sif með tvö skallamörk þegar Þór/KA fór upp í 3. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arna Sif skoraði sín fyrstu mörk á tímabilinu í kvöld.
Arna Sif skoraði sín fyrstu mörk á tímabilinu í kvöld. vísir/bára
Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði tvö mörk þegar Þór/KA bar sigurorð af Keflavík, 3-1, í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld.

Með sigrinum komst Þór/KA upp í 3. sæti deildarinnar. Selfoss, sem er í því fjórða, á þó leik til góða á Þór/KA.

Þetta var fjórða tap Keflavíkur í röð. Liðið er í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar með tíu stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom Keflvíkingum yfir með góðu skoti fyrir utan vítateig á 36. mínútu. Staðan í hálfleik var 0-1, Keflavík í vil.

Á 50. mínútu jafnaði Arna Sif fyrir Þór/KA með skalla eftir fyrirgjöf Þórdísar Hrannar Sigfúsdóttur. Þetta var fyrsta mark hennar í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Sjö mínútum síðar kom Andrea Mist Pálsdóttir Þór/KA yfir eftir sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur.

Á 65. mínútu gulltryggði Arna Sif svo sigur heimakvenna með skalla eftir hornspyrnu Andreu Mistar. Lokatölur 3-1, Þór/KA í vil.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×