Íslenski boltinn

FH hefur aldrei áður fengið KR í heimsókn í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson skoraði tvö mörk fyrir FH í bikarúrslitaleiknum fyrir nákvæmlega níu árum. Hér er hann í baráttunni við Bjarna Guðjónsson, núverandi aðstoðarþjálfara KR-liðsins.
Matthías Vilhjálmsson skoraði tvö mörk fyrir FH í bikarúrslitaleiknum fyrir nákvæmlega níu árum. Hér er hann í baráttunni við Bjarna Guðjónsson, núverandi aðstoðarþjálfara KR-liðsins. Mynd/Daníel
FH-ingar reyna í kvöld að vinna sinn fyrsta bikarleik á móti KR í nákvæmlega níu ár en það er einmitt jafnlangt liðið síðan að FH-liðið varð bikarmeistari síðast.

FH og KR hafa mæst áður í bikarsögunni en leikurinn í kvöld verður samt sögulegur. Leikur FH og KR á Kaplakrikavelli hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Útsendingin hefst klukkan 17.40.

Allir sex bikarleikir FH og KR til þessa hafa nefnilega farið fram í Reykjavík. Það breytist í kvöld þegar FH-ingar taka á móti erkifjendum sínum í Vesturbænum í undanúrslitaleik Mjólkurbikars karla.

Fjórir leikjanna hafa farið fram á KR-vellinum í Frostaskjóli þar á meðal þeir þrír síðustu sem KR hefur unnið alla. FH vann þrjá fyrstu bikarleiki liðanna, einn á KR-vellinum en hina tvo á þjóðarleikvanginum í Laugardalnum.

FH hefur ekki unnið bikarleik á móti KR síðan í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvellinum haustið 2010. FH vann þá 4-0 stórsigur þökk sé tveimur mörkum frá Matthíasi Vilhjálmssyni og sitt hvoru markinu frá Atli Viðari Björnssyni og Atla Guðnasyni.

Þessi bikarúrslitaleikur fyrir níu árum fór einmitt fram 14. ágúst og það eru því liðin nákvæmlega níu heil ár þegar leikurinn er spilaður í dag. Leikirnir hófust meira að segja á sama tíma eða klukkan 18.00.

Sex bikarleikir KR og FH:

8 liða úrslit 2015: KR vann 2-1 á KR-velli

32 liða úrslit 2014: KR vann 1-0 á KR-velli

16 liða úrslit 2011: KR vann 2-0 á KR-velli

Úrslitaleikur 2010: FH vann 4-0 á Laugardalsvelli

8 liða úrslit 2004: FH vann 3-1 á KR-velli

Undanúrslit 2003: FH vann 3-2 á Laugardalsvelli

Samtals:

3 FH-sigrar

3 KR-sigrar

11 FH-mörk

8 KR-mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×