Fótbolti

Megan Rapinoe segir nýjasta útspil bandaríska knattspyrnusambandsins dæmigert fyrir þeirra hegðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe í sigurskrúðgöngunni í New York.
Megan Rapinoe í sigurskrúðgöngunni í New York. Getty/Brian Ach
Bandaríska knattspyrnusambandið svífst einskis í baráttunni sinni fyrir að borga knattspyrnukonum ekki það sama og knattspyrnukörlum.

Bandarísku landsliðskonurnar og nýkrýndu heimsmeistararnir eru í málaferlum gegn knattspyrnusambandinu sínu þar sem þær krefjast þess að fá sömu laun og sömu bónusgreiðslur og leikmenn karlalandsliðsins.

Á meðan bandaríska kvennalandsliðið hefur unnið tvö heimsmeistaramót í röð þá komst bandaríska karlalandsliðið ekki á síðasta heimsmeistaramót. Sama kvöld og bandarísku stelpurnar unnu HM í Frakklandi í sumar þá tapaði karlalandsliðið á móti Mexíkó í úrslitaleik Gullbikarsins.





Nýjasta útspil bandaríska knattspyrnusambandsins í baráttunni hefur ekki vakið mikla lukku meðal leikmanna kvennalandsliðsins eða annarra sem styðja þeirra málstað.

Áður höfðu starfsmenn sambandsins reiknað það út að í raun væru konurnar búnar að fá meira borgað en karlarnir en þá voru þeir að taka saman heildargreiðslur en ekki samanburð á pening fyrir saman árangur.

Bandaríska sambandið fylgdi því eftir með því að ráða útsendara á þingi, svokallaða lobbíista, til að reyna að sannfæra þingfólk um að konurnar væru í raun að fá það sama borgað og karlarnir.

Megan Rapinoe er stjarna sumarsins en hún er fyrirliði bandaríska landsliðsins og var bæði markahæst og kosin best á HM. Hún hefur verið í bandaríska landsliðinu í tíu ár og þekkir því vel samskiptin við bandaríska knattspyrnusambandið.

„Þetta útspil þeirra er dæmigert fyrir það hvernig þeir hafa hagað sér í öll þessi ár,“ sagði Megan Rapinoe í viðtali við Megan Linehan hjá The Athletic.



 

Talsmaður bandaríska landliðsins sagðist bæði vera í sjokki og svekkt þegar hún heyrði af útspilinu en þetta kom Megan Rapinoe ekki á óvart.

„Ég vildi að ég gæti sagt að ég væri sjokkeruð yfir þessu en svona hefur þetta bara verið öll þessi ár. Stóra myndin er að þeir eru að eyða peningunum sem þeir fá inn í gegnum styrktaraðila og frá litlum krökkum sem spila fótbolta, frá öllum, þetta er kannski svolítið dramatískt hjá mér en þeir eru að eyða þeim peningum í að koma í veg fyrir jafnrétti í landinu,“ sagði Megan Rapinoe.

„Ég veit ekki af hverju þeir þurfa að ráða lobbísta ef þeir eru að borga okkur jafnmikið og strákunum því þá munu þessi nýju lög ekki koma neitt við þá,“ sagði Rapinoe en þingmenn hafa blandast í málið af því nokkrar þingkonur lögðu fram frumvarp um að öll íþróttasambönd í Bandaríkjunum verði að borga konum og körlum jafnmikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×