Viðskipti erlent

Samsung vex í Evrópu vegna millidýrra snjallsíma

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Galaxy Fold er ekki enn kominn á markað.
Galaxy Fold er ekki enn kominn á markað. Nordicphotos/AFP
Hlutdeild Samsung á snjallsímamarkaði í Evrópu var 40,6 prósent á síðasta ársfjórðungi. Það er um fimmtungsvöxtur frá sama tíma í fyrra, þegar fyrirtækið hafði 33,9 prósent markaðarins. Þetta kom fram í skýrslu sem greiningarfyrirtækið Canalys birti og tæknimiðillinn Engadget greindi frá.

Skýra má þennan vöxt Samsung, að minnsta kosti að hluta til, með vaxandi vinsældum millidýrra síma frá fyrirtækinu, samkvæmt Can­alys. Fólk sé sum sé frekar að sækja í síma á borð við Galaxy A50 eða A70 heldur en flaggskipin Galaxy Note 10 og Galaxy S10 sem kosta tvöfalt, jafnvel þrefalt meira.

Samsung-fólk er þó ekki það eina sem getur fagnað góðum fjórðungi. Kínverski framleiðandinn Xiaomi átti einnig góðan fjórðung, reyndar betri en Samsung. Markaðshlutdeildin var 9,6 prósent á síðasta fjórðungi sem er tæplega helmingi meira en 6,5 prósentin sem fyrirtækið hafði á sama tíma í fyrra.

Öðrum gekk öllu verr. Apple fór úr 17 prósentum í 14,1 prósent og HMD Global, sem framleiðir Nokia-snjallsíma, úr 3,2 prósentum í 2,7 prósent. Þá kemur ekki á óvart eftir ásakanir um njósnir og viðskiptabann í Bandaríkjunum að Huawei fór úr 22,4 prósentum í 18,8 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×