Sautján ára drengur var fluttur á slysadeild eftir að fjórir til fimm einstaklingar réðust á hann við Eddufell, þar sem áður var verslunarkjarninn Fellagarðar. Lögreglu barst tilkynning um árásina á tíunda tímanum í gærkvöldi.
Drengurinn var með áverka í andliti og nokkuð blóðugur og kvartaði undan verkjum í hendi. Árásin stóð yfir í nokkurn tíma þar sem árásarmennirnir eltu drenginn frá verslunarkjarnanum yfir á skólalóð Fellaskóla þar sem barsmíðarnar héldu áfram.
Að sögn Gunnars Hilmarssonar aðalvarðstjóra er árásarmannanna enn leitað en líklegt þykir að þeir hafi þekkt fórnarlambið. Þeir hafa ekki enn fengið nöfn þeirra sem grunaðir eru um verknaðinn og munu ræða við vitni að árásinni, sem voru þónokkur.
Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu og er talið skýrast á næstu dögum.
