Í Járnkarli, sem kallast Ironman á ensku, þreyta keppendur afar krefjandi þríþraut þar sem þeir þurfa að synda 3,86 kílómetra, hjóla 180 kílómetra og hlaupa heilt maraþon, 42,2 kílómetra. Hálfur Járnkarl samanstendur af 1,9 kílómetra löngu sundi, 90 kílómetra hjólreiðum og 21,1 kílómetra löngu hlaupi.
Katrín hefur mikla reynslu af þríþrautarkeppnum og hafði æft af kappi í vetur fyrir þetta mót í Indónesíu. Hún og maðurinn hennar Þorsteinn Másson keppa bæði í þríþrautum og voru bæði á leið til Indónesíu til að keppa. Þau höfðu ráðið sér þjálfara og fundu þau fyrir miklum bætingum á æfingatímabilinu. Katrínu hins vegar leið ekki vel á hlaupaæfingum. Henni leið eins og hún væri hundrað ára gömul.
Hún tók þátt í tveimur stigakeppnum á Íslandi fyrr í ár þar sem hún var í fyrsta og öðru sæti í sínum aldursflokki en þriðja og fjórða sæti í heildina.
Hélt að hún hefði ofreynt sig eftir keppni
Þrátt fyrir gott gengi leið henni ekki vel eftir keppnir. Hún fann fyrir beinverkjum og flensueinkennum. Hún fékk berkjubólgu ofan í það en Katrín taldi að hún hefði líklegast ofreynt sig í keppnunum og ætlaði ekki að ræða það frekar.Nokkrum dögum síðar var hún mætt á hlaupaæfingu en var frekar kraftlítil. Hún fór út að hlaupa en sneri við eftir einn kílómetra.
„Ég hugsa að þetta er örugglega ekkert, ég hafði hóstað blóði í fyrra líka og farið til læknis og hann sent mig í röntgen á lungum og það var ekkert að. Þannig ég ætlaði nú ekki að fara ónáða læknana með að spyrja aftur hvað væri að mér,“ segir Katrín.
Vinur þeirra fann krabbameinið
Í júní síðastliðnum mætti vinur hennar og eiginmanns hennar í heimsókn til þeirra í Bolungarvík. Þar var á ferðinni Jóhann Sigurjónsson sem starfar sem læknir við Háskólasjúkrahúsið í Lund í Svíþjóð. Jóhann er sjálfur frá Ísafirði og hafði ráðið sig í afleysingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði í skamman tíma yfir sumarið.Katrín ákvað að spyrja Jóhann út í blóðið sem hún hafði hóstað og stóð ekki á svörum. Jóhann skipaði henni að mæta á sjúkrahúsið á Ísafirði daginn eftir.
Jóhann setti hana í öndunarpróf og því næst í sneiðmynd þar sem blettur kom í ljós sem gat annað hvort verið bólginn eitill eða lungnakrabbamein.
Þetta kom Katrínu á óvart, enda lifir hún fremur heilsusamlegu lífi og aldrei á ævinni reykt. Þetta krafðist hins vegar frekari rannsókna þar sem sneiðmynd var tekin af höfði hennar, kvið og lungum. Hún var send í beinaskanna, frekari öndunarpróf, blóðprufu og berkjuspeglun.
Í berkjuspegluninni kom í ljós krabbamein sem var nánast búið að loka fyrir eina berkjuna í hægra lunganu. Um var að ræða mjög sjaldgæft krabbamein sem kalla carcinoid.
Skera þurfti hálft lungað í burtu
Fjöldi spurninga sótti að Katrínu eftir að hafa fengið þessar fréttir. Eftir að hafa lifað heilsusamlegu lífi stóð hún uppi með lungnakrabbamein 35 ára gömul.Læknarnir tjáðu Katrínu að þetta æxli hafi orðið þess valdandi að þó svo að hún hafi fengið loft í hægra lungað þá gaf það henni ekki allt það súrefni sem heilbrigt lunga gefur líkamanum. Hún hafði því verið á fullu við æfingar og keppni í þríþraut með annað lungað hálf óstarfhæft.
Hún ákvað eins og henni er lagið að hafa bjartsýnina að leiðarljósi, drífa sig í aðgerð svo hún gæti haldið áfram með lífið. Lækningin átti þó ekki eftir að reynast auðveld, skera þurfti hálft hægra lungað í burtu.
Hún segist hafa verið svo heppin að hafa fengið Tómas Guðbjartsson, betur þekktur sem Lækna Tómas, sem skurðlækni.
Spurði hvort Tómas hefði sett hraðamet
„Hann læknaði mig á met hraða. Enda þegar aðgerðin var búin þá var það fyrsta sem ég spurði hann hvort þetta hefði verið „personal best“ hjá honum,“ rifjar Katrín upp en hún spurði Tómas þessarar spurningar þegar hún var nývöknuð og fremur ringluð eftir svæfinguna og með „hraðamet“ á heilanum eftir allar æfingarnar.Við tók fimm daga dvöl á Landspítalanum þar sem hún gat ekki talað heila setningu án þess að þurfa að hvíla sig. Þolið var ekkert og þurfti hún aðstoð til að komast á fætur dagana eftir aðgerðina.
Hún fékk svo loks að fara aftur vestur til Bolungarvíkur og var mætt til vinnu í Landsbankanum á Ísafirði tveimur og hálfri viku eftir aðgerðina. Katrín gat hins vegar ekki setið auðum höndum og fór strax að hjóla og reyna sig við hlaup.
Katrín segir að ekki hafi staðið til að taka þátt í keppninni í Indónesíu en hún og Þorsteinn voru búin að bóka ferðina og gistingu fyrir börnin og foreldra Þorsteins og systur hans.
Fékk loftbrjóst fyrir brottför
Það stóð því alltaf til að Katrín færi með til Indónesíu en ekki að hún myndi keppa. Enda var hún ekki viss um hvort hún kæmist til Indónesíu viku fyrir brottför sökum heilsu. Setja þurfti dren í hana til losa vökva úr kviðarholi en það gekk ekki eins vel og læknar höfðu vonast til. Vökvinn minnkaði lítið og hún fékk loftbrjóst.Reglan er sú að ekki má fljúga fyrr en tveimur vikum frá því loftbrjóstið er farið. Hjá Katrínu gerðist það ekki fyrr en þremur dögum fyrir brottför.
Hún ráðfærði sig við lækni sem sagði henni ekki að hafa áhyggjur. Hún ákvað því að skella sér í ferðina en hafði eðlilega áhyggjur fyrir flugið. Ferðalagið til Indónesíu er ansi langt. Fyrst þurfti að fljúga þrjá og hálfan tíma til Frankfurt í Þýskalandi og þaðan í tólf tíma til Singapúr.
Hvað ef lungað myndi falla saman út af loftbrjóstinu?
„Ég vandaði mig við að anda alla leiðina,“ segir Katrín en ferðalagið gekk eins og sögu. Þau lentu í Singapúr þar sem þau gistu eina nótt áður en ferja var tekin til paradísareyjunnar Bintan.
Ætlaði bara að prófa sundið
Katrín hafði ekki gefið út að hún ætlaði sér að keppa en var engu að síður skráð til keppni og var með allan keppnisbúnað með sér sem hún ætlaði að nota til æfinga á meðan þau voru þarna úti. Þau komu til Bintan átta dögum fyrir keppni.Hún hafði prófað í fyrsta skipti að synda eftir aðgerðina rúmri viku fyrir keppnina sem gekk afar vel.
Hafði Katrín verið í samskiptum við tvo lækna í aðdraganda keppninnar og borið undir þá hvort hún mætti keppa. Læknarnir sögðu að svo lengi sem hún myndi gæta þess að ofreyna sig ekki í keppninni og að hún treysti sér til þess þá væri það í lagi.
Hún hugsaði því með sér að hún gæti allt eins mætt til leiks og tekið sundgreinina og séð til hvernig hún yrði eftir hana.
„Sundið var snilld, tær botn og grænn sjór, maður flaug àfram í vatninu,“ segir Kata. Úr varð að taka hjólagreinina einnig, því hún hafði tekið fimmtíu kílómetra hjólreiðaæfingu á Bintan-eyjunum fyrir keppnina.
Líkt og sundið gengu hjólreiðarnar eins og í sögu, hún kláraði þær á fínum tíma, svo fínum að þegar þarna var komið til sögu var hún í öðru sæti í sínum flokki.
„Ég sem var ekki einu sinni að reyna neitt rosalega mikið á mig því ég átti að passa mig að ofgera mér ekki samkvæmt læknisráði,“ segir Katrín.
Hún var búin með sundið og hjólið og varla orðin móð.
Kom ekki til greina að hætta
Næsta grein var annað og meira mál, hálft maraþon en hlaupin höfðu einmitt reynst henni hvað erfiðust fyrir aðgerð vegna veikindanna.Hún ákvað hins vegar að skella sér í hálfa maraþonið og hugsaði með sér að hún myndi ganga og skokka til skiptis til að sjá hversu langt hún kæmist.
Um var að ræða tvo tíu kílómetra hringi en þegar Katrín hafði klárað fyrri hringinn kom ekki til greina að hætta, hún lauk því hálfum Járnkarli sjö vikum eftir stóra aðgerð þar sem hálft hægra lungað hafði verið fjarlægt. Og aðstæðurnar voru ekki sérlega léttar, en Ironman-keppnin á Bintan-eyjum er með þeim erfiðari í heiminum.
Katrín hafnaði í 45. sæti af 400 konum í þessari keppni og var í tíunda sæti í sínum aldursflokki.
Hélt hausnum í gegnum allt ferlið
Niðurstaðan kom Katrínu verulega á óvart og er hún afar hamingjusöm með að haldið heilsunni í gegnum þessa erfiðleika.Æxlið sem hún fékk er illkynja en góðu fréttirnar fyrir Katrínu voru þær að það vex frekar hægt og fundu læknar engin merki um að það hefði náð að dreifa sér. Slapp Katrín því við allar lyfjameðferðir og hafa engir stórvægilegir eftirmálar orðið af skurðaðgerðinni sem virðist hafa dugað til að vinna bug á meininu.
„Í gegnum allt ferlið síðustu mánuði hef ég passað að halda hausnum á sínum stað, missa hann aldrei í neitt rugl. Ekkert verið að skæla eða vorkenna mér, þegar maður getur ekki breytt einhverju þá þýðir ekki að eyða óþarfa hugsunum í það. Ég var búin að vera þjálfa mental toughness síðasta árið fyrir þríþrautina sem skilaði sér aldeilis vel í öllu þessu umstangi. Næsta mission er Ironman Jönköping þar sem við mætum með þríþrautafélagið 3sh,“ segir Katrín.