Íslenski boltinn

Toppliðin unnu bæði og spennan magnast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlín skoraði tvö mörk í Árbænum.
Hlín skoraði tvö mörk í Árbænum. vísir/bára
Efstu tvö lið Pepsi Max-deildar kvenna, Valur og Breiðablik, unnu bæði sína leiki í dag. Valskonur eru því enn með tveggja stiga forskot á Blika þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðin mætast í sautjándu og næstsíðustu umferð deildarinnar 15. september næstkomandi.

Valur vann 1-5 sigur á Fylki í Árbænum. Fyrir leikinn voru Fylkiskonur búnar að vinna fjóra leiki í röð.

Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Val og Elísa Viðarsdóttir eitt. Elín Metta og Hlín eru markahæstar í deildinni með 15 mörk hvor.

Marija Radojicic skoraði mark Fylkis sem er í 5. sæti deildarinnar með 22 stig.

Agla María skoraði sitt tólfta deildarmark í sumar gegn Stjörnunni.vísir/bára
Breiðablik vann 2-0 sigur á Stjörnunni á Kópavogsvelli.

Agla María Albertsdóttir kom Blikum yfir á 20. mínútu eftir sendingu Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Eftir klukkutíma leik skoraði Alexandra Jóhannsdóttir annað mark heimakvenna. Aftur átti Karólína Lea stoðsendinguna.

Stjarnan er í 7. sæti deildarinnar með 16 stig, sex stigum frá fallsæti.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

KR vann gríðarlega mikilvægan sigur á Keflavík, 1-2, í botnbaráttunni og Selfoss fór upp fyrir Þór/KA í 3. sætið með sigri í leik liðanna á Akureyri.

Leik ÍBV og HK/Víkings var frestað vegna veðurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×