Íslenski boltinn

Keflavík upp í 5.sætið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Keflavík fagnaði sigri í kvöld.
Keflavík fagnaði sigri í kvöld. vísir/ernir
Keflavík vann góðan útisigur á Þrótturum í Inkasso-deildinni knattspyrnu í kvöld. Bæði lið sigla fremur lygnan sjó þó Þróttarar geti ekki kvatt falldrauginn alveg strax.

Fyrir leikinn í kvöld voru Keflvíkingar í 7.sæti deildarinnar með 25 stig en Þróttur í 8.sæti með 21 stig.

Gestirnir byrjuðu af krafti í leiknum í kvöld og Þorri Már Þórisson kom þeim yfir strax á 5.mínútu. Ísak Óli Ólafsson kom þeim í 2-0 á 26.mínútu og Adolf Bitegego nánast tryggði sigurinn fyrir hlé þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 39.mínútu.

Þróttarar gerðu tvær breytingar í leikhléi og þær skiluðu marki á 53.mínútu þegar Jasper Van Der Heyden skoraði.

Það dugði ekki til og Keflvíkingar sigldu sigrinum örugglega í höfn.

Með sigrinum lyfta Suðurnesjamenn sér upp í 5.sæti Inkasso-deildarinnar en Þróttarar sitja áfram í 8.sæti og eru fimm stigum fyrir ofan Magna sem situr í fallsæti ásamt Njarðvík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×