Íslenski boltinn

Setur pressu á gamla liðið sitt: Mesti skandall í sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi ef Valur vinnur ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Arna Sif Ásgrímsdóttir. Vísir/Bára
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þór/KA, er yfirlýsingaglöð í viðtali við fótboltavefinn fotbolti.net en hún fór í spjall eftir að hún var valin besti leikmaður 14. umferðar Pepsi Max deildar kvenna.

Arna Sif segist ekki hafa verið ánægð með sína spilamennsku í sumar en hún skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Keflavík í síðasta leik.

Arna Sif er á sínu öðru tímabili með Þór/KA eftir að hún kom aftur úr atvinnumennsku á Ítalíu. Hún lék þar á undan í tvö ár með Val og þekkir því mjög vel til hjá Hlíðarendaliðinu.

Athygli vekja ummæli hennar um Valsliðið en meðan Arna lék með Valsliðinu þá enduðu Hlíðarendakonur í þriðja sæti bæði árin.

Valur og Íslandsmeistarar Breiðabliks hafa verið með yfirburðarlið í Pepsi Max deildinni í sumar og há liðin tvö harða keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Arna Sif er hins vegar á því að Valur eigi að vinna þetta.

Valsliðið er eins og er með tveggja stiga forystu á Breiðablik en er líka með mun betri markatölu. Liðin eiga eftir að mætast á heimavelli Blikanna.

„Fyrir mér væri það einhver mesti skandall í sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi ef Valur myndi ekki taka þetta. Þær eru með svo rosalegt lið," sagði Arna Sif sem er þó ekki tilbúin að afskrifa Blikaliðið í þessum hálfgerða úrslitaleik sem er framundan.

Það má lesa allt viðtalið við hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×