Þetta kemur fram í umsögn Icelandair Group um drögin að grænbókinni, sem verið hefur til kynningar í Samráðsgáttinni. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, er skrifaður fyrir umsögninni.
Í drögunum er lagt til að það verði stefna íslenskra stjórnvalda að stofnaður verði sjóður til að tryggja að varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll uppfylli öryggis- og þjónustukröfur. Lagt er til að sú uppbygging fari fyrst fram á Egilsstaðaflugvelli, þar þurfi minnst að gera og því sé hagkvæmt að byggja upp varaflugvöll þar.
Hafa áður sagt að staða varaflugvalla sé stærsta ógn við öryggi í flugi til og frá Íslandi
Hagsmunaaðilar í flugi á Íslandi hafa lengi bent á að mikilvægt sé að tryggja að varaflugvellir séu nægjanlega vel útbúnir til að sinna hlutverki sínu. Í umsögn sinni um samgönguáætlun 2019-2023 sagði Bogi, þá starfandi forstjóri Icelandair, til að mynda að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum væru stærsta ógn við öryggi í flugi til og frá Íslandi.
„Félagið hefur bent á að Egilsstaðaflugvöllur sé best fallinn til slíkrar uppbyggingar, m.a. vegna þess að þar er fjallendi langt í burtu og aðkoman hentug með tilliti til vinds, aðflugs og brottfluga,“ segir í umsögn Icelandair um drög að grænbókinni.
Varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll eru þrír, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egillsstaðaflugvöllur.
Ekki með svigrúm til að mæta auknum álögum til að fjármagna uppbyggingu
Í drögunum að grænbókinni er einnig lagt til að innheimt verði hóflegt flugvallagjald af flugrekendum sem renna muni inn í sjóðinn sem fjármagna eigi uppbyggingu varaflugvalla.
„Miðað við álagningu gjalds að fjárhæð 300 kr. á hvern flugfarþega myndi gjaldtakan þýða auknar álögur að fjárhæð 1,5 milljarða kr. á Icelandair Group. Til samanburðar skilaði félagið tapi að fjárhæð 6,4 milljörðum kr. á árinu 2018 og hlýtur því að gefa augaleið að svigrúm til aukinnar álagningar gjalda er ekkert. Þvert á móti væri nauðsynlegt að auka samkeppnishæfni íslenskra flugrekenda með því að létta á þeim álögum sem nú eru til staðar.“
Vilja frekar að hluti skatttekna vegna erlendra ferðamanna renni til uppbyggingar
Þá bendir félagið á að Icelandair, sem og önnur ferðaþjónustufyrirtæki, hafi átt stóran þátt í endurreisn íslenska hagkerfisins eftir hrun árið 2008. Eðlilegra væri að hluti þeirra skattekna sem fylgt hefur fjölgun á komu ferðamanna hingað til lands rynni til uppbyggingar varaflugvalla, í stað þess að auka álögur á flugrekendur.„Væri það mun eðlilegri og sanngjarnari leið í stað þess að draga enn frekar úr samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu með frekari sértækum gjöldum sem leggjast á erlenda ferðamenn.“