Ritstjóri Viðskiptablaðsins og Tekjublaðs Frjálsrar verslunar er Trausti Hafliðason. Hann segir útgáfu blaðsins útheimta mikinn undirbúning. Trausti segir að þeir séu að vinna inn í tiltekið format sem liggi fyrir en það hljóti að hafa kostað ævintýralega mikla vinnu að koma því á koppinn.
„Þú þarft að búa til lista með nöfnum samkvæmt tiltekinni kríteríu í ákveðnum flokkum. Þú þarft að afla þér upplýsinga um þetta fólk og bera saman við kennitölu, svo þú sért örugglega með rétta manneskju. Þeir eru margir Jónar Jónssynir í landinu. Svo eru þetta viðkvæmar upplýsingar þannig að það þarf að passa sig mjög vel.“
Listamenn með félög um sínar tekjur
Trausti segir að þeir séu með þar til gert exelskjal sem byggir á ákveðnum formúlum sem miðar við þessar uppgefnu útsvarstekjur.„Við reiknum út tekjur miðað við útsvar. Ef viðkomandi er að hækka mikið milli ára þá flaggar skjalið því, þá sjáum við það strax og förum aftur yfir allt slíkt. Til að baktryggja að við séum að fara með réttar upplýsingar, það þarf að slá ýmsa slíka varnagla. Ef menn eru komnir yfir ákveðna upphæð, þá flaggar skjalið því líka. Það gefur augaleið að í þessum tekjuupplýsingum, byggir á útsvarsskildum tekjum, þá endurspeglar það ekkert endilega föst laun viðkomandi einstaklings á ári,“ bendir Trausti á. Og segir að þarna inni í séu ekki laun fyrir ýmis aukastörf og hlunnindi; dagpeningar og bílastyrkir eru til að mynda ekki inni í þessu.

Trausti segist ekki vita hversu algengt það er að listamenn séu með sérstök félög um sínar tekjur en líklega hafi margir þann háttinn á. „Og maður spyr sig til dæmis gagnvart fasteignasölum, sem er nýr flokkur hjá okkur og svo áhrifavaldar nýr flokkur hjá okkur líka. Miðað við hversu áberandi og þekktir þeir eru endurspegla launin það ekki endilega. Maður veltir því fyrir sér hvort þeir eru að fá laun annars staðar frá?“
Ekkert sem kemur sérstaklega á óvart
Blaðamenn Viðskiptablaðsins/Tekjublaðsins hafa nú verið að garfa í þessum málum undanfarna daga. Og því ekki úr vegi að spyrja Trausta hvort þarna sé eitthvað sem komi honum sérstaklega á óvart? Hann segir svo ekki vera.„Nei, ekkert sem kemur mér sérstaklega á óvart. Auðvitað var það athyglisvert að til dæmis Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar skyldi hækka úr 7,5 milljón í 27,5 milli ára. En, það voru skýringar á því. Íslensk erfðagreining sendi tilkynningu um að hann hafi fengið greitt úr séreignasparnaði en það flokkast þá sem tekjur. En fullyrða að hann sé með sömu tekjur og áður.“

Skattsvikarar og annað fólk
Upplýsingum úr Tekjublaðinu sem helst er slegið upp snúa vitaskuld að þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Vellauðugum kóngum og drottningum. En, ekkert er ljós án skugga. Jafnframt vekja litlar sem engar tekjur athygli og er þá oft talað um vinnukonuútsvar í háði. Við vinnslu á Tekjublaðinu, var það þá svo að menn hnutu um eitthvað sem mátti augljóslega telja hrein og klár skattsvik? Er það algengt samkvæmt þessum upplýsingum?„Ég treysti mér ekki út á þá hálu braut,“ segir Trausti. Við höfum enga innistæðu til að tjá okkur um það. En, menn þurfa ekki annað en lesa blaðið og koma þá auga eitthvað sem kemur á óvart. Einhver forstjóri sem er nokkur hundruð þúsund krónur á mánuði, þá vekur það athygli. En á móti kemur þá þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það. Þetta getur verið með ýmsum móti. Hér eru að ræða útsvarskildar tekjur.“

Deilir ekki einörðum skoðunum Björgvins
Birting þessara upplýsinga eru umdeildar, ekki síst úr ranni frjálshyggjumanna sem eðli máls samkvæmt eru ekki síst markhópur Viðskiptablaðsins. Sá sem harðast hefur barist gegn því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar, og kærði hann meðal annars vefinn tekjur.is til Persónuverndar fyrir birtingu á upplýsingum um tekjur, er Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri KOM almannatengsla. Björgvin er fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins.Hver er afstaða Trausta til þessa? Hann segist vera að sinna vinnu sinni en varðandi persónulega afstöðu sína segir hann:
„Í prinsippinu hef ég ekki jafn sterkar skoðanir og fyrrum kollegi minn á birtingu þessara upplýsinga. Ef ég má orða það svo?“