Erlent

Trump segir Dorian stefna í að verða algjört „skrímsli“

Gunnar Reynir Valþórsson og Sylvía Hall skrifa
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Íbúar á austurströnd Bandaríkjanna búa sig nú undir fellibylinn Dorian sem skellur á um helgina. Óttast er að hann verði orðinn að fjórða stigs fellibyl þegar hann nær landi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti talaði um algert skrímsli í myndbandi sem hann sendi frá sér í gærkvöld. Hann hefur aflýst Póllandsför sinni vegna fellibyljarins og mun Mike Pence varaforseti fara í hans stað. Í samtali við blaðamenn sagði forsetinn það vera mikilvægt að hann væri á landinu þegar Dorian myndi koma að landi.

„Við erum tilbúin,“ segir Trump meðal annars í myndbandinu þar sem hann vonar að þjóðin verði „heppin“ þó svo að útlitið sé ekki gott. 





Óljóst er hvar veðrið mun skella á en það verður líklegast einhvers staðar á milli Florida Keys og suðurhluta Georgíu ríkis. Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórídaríkis, hefur lýst yfir neyðarástandi í öllu fylkinu og biðlaði til íbúa að fylgjast vel með þróun mála og verða sér úti um mat sem endist í það minnsta í sjö daga.

Vegna þess að enn er ekki víst hvar Dorian lendir þá hefur fólk ekki verið beðið um að yfirgefa heimili sín en fastlega má búast við slíkum tilkynningum þegar nær dregur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×