Fótbolti

Stuðningsmenn grýttu hús landsliðsfyrirliðans

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Umaru Bangura spilar fyrir lið Zürich í Sviss
Umaru Bangura spilar fyrir lið Zürich í Sviss vísir/getty
Það getur verið erfitt að bregðast landi sínu og þjóð og því fékk Umaru Bangura, landsliðsmaður Síerra Leóne, að finna fyrir á dögunum.

BBC greindi frá því að reiðir stuðningsmenn Síerra Leóne hafi ráðist á hús Bangura eftir að hann náði ekki að skora úr vítaspyrnu.

Bangura, sem er fyrirliði liðs Síerra Leóne, tók vítaspyrnu í uppbótartíma leiks Síerra Leóne og Líberíu á sunnudag. Það þýddi að Líbería vann einvígi liðanna 3-2 og fór áfram í næsta stig undankeppni HM 2022 en Síerra Leóne sat eftir með sárt ennið.

Stuðningsmenn voru eðlilega sárir með þau örlög en þeir sem voru hvað reiðastir tóku upp á því að kasta steinum í hús Bangura.

Bæði gluggar og hurðir hússins skemmdust mikið við athæfið.

Þá er búið að semja lag þar sem gert er grín að mistökum Bangura.

„Þetta var einn versti dagur lífs míns,“ sagði Bangura við BBC.

„Ég get ekki einu sinni farið út. Ég bjóst ekki við því að fá svona mótlæti.“

„Ég sem fyrirliði steig upp og tók vítið. Ég er mjög vonsvikinn en á sama tíma vil ég biðjast afsökunar og biðja um fyrirgefningu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×