Skoðun

Þöggun

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Nú nýverið kom út bók um lögfræði eftir þrjá fyrrverandi og núverandi kennara við lagadeild Háskóla Íslands. Bókin heitir Hrunréttur. Höfundarnir eru Ása Ólafsdóttir, Eyvindur G. Gunnarsson og Stefán Már Stefánsson. Bókin hefur að geyma efni um efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008. Höfundarnir skrifa um margs konar efnisþætti sem tengjast því. M.a. er kafli um dóma Hæstaréttar í málum sem áttu rót sína að rekja til hrunsins.

En höfundarnir gera meira en þetta. Í bókinni er að finna skrár yfir allt efni, sem þeir telja að hafi birst á prenti, hvort sem er í bókum, tímaritum eða jafnvel dagblöðum um þetta. Einnig er nefnd alls konar umfjöllun sem birst hefur á internetinu. Bókin er á titilblaði sögð vera ritrýnd.

Á æviferli mínum hef ég gengt dósentstöðu við lagadeild Háskóla Íslands og síðar stöðu prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, verið athafnasamur málflytjandi um áratuga skeið og átt sæti í Hæstarétti í átta ár 2004 til 2012. Ég hef líklega skrifað meira en flestir aðrir lögfræðingar um hrunið og lögfræðileg álitaefni sem komið hafa upp í samfélaginu í kjölfar þess. Meðal annars er efni sem að þessu lýtur að finna í fjórum bókum mínum, Veikburða Hæstiréttur (2013), Í krafti sannfæringar (2014), Með lognið í fangið (2017) og When Justice failed (2018). Þá hef ég skrifað um þetta fjölmargar greinar í lögfræðitímarit, önnur tímarit og dagblöð. Það efni hefur oftast einnig verið birt á internetinu. Þessi athafnasemi hefur ekki farið framhjá mörgum, nema þá kannski helst háskólakennurum í lögfræði, því á skrif mín er ekki minnst í bók lagakennaranna þriggja.

Þegar ég spurði fræðimennina sem skrifuðu Hrunrétt, hvers vegna verka minna væri ekki getið í bók þeirra, fékk ég það svar að þau hefðu ekki komið til umræðu við samningu hennar!

Ég hef sjálfur haldið því fram að íslenska lögfræðingasamfélagið reyndi að þagga niður gagnrýni mína á óforsvaranleg vinnubrögð dómstóla eftir hrunið. Hér sýnist mér vera á ferðinni gott dæmi um þessa þöggun. Hún er höfundunum varla til mikils sóma, en gæti kannski orðið þeim til framdráttar. Hver veit?

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×