Listaverki huldumannsins Banksy var stolið aðfaranótt mánudags í París. Verkið var aftan á stóru umferðarskilti nærri Pompidou-torgi í miðborginni. Sýndi það vígalega rottu með klút fyrir kjaftinum halda á hníf. Lögregla borgarinnar rannsakar nú þjófnaðinn.
Þar sem Banksy fer huldu höfði er oft óljóst hvaða verk tilheyra honum. Parísarrottan er hins vegar óumdeild þar sem hann hefur sjálfur auglýst hana á samfélagsmiðlum. Er hún vísun í stúdentaóeirðirnar í borginni árið 1968.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verkum Banksy er stolið í París. Í janúar skáru óprúttnir aðilar með slípirokk verk til minningar um Bataclan-árásirnar af eldvarnarhurð tónleikahallarinnar.
