Enski boltinn

Owen skaut til baka á Shearer: Reyndir allt þú gast til að komast frá Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shearer og Owen fagna marki með Newcastle United.
Shearer og Owen fagna marki með Newcastle United. vísir/getty
Skotin gengu á milli gömlu samherjanna hjá Newcastle United og enska landsliðinu, Michael Owen og Alan Shearer, á Twitter í dag.

Ástæða skeytasendinganna er ný ævisaga Owens, Reboot - My Life, My Time. Shearer hafði lítinn húmor fyrir ummælum Owens um Newcastle í henni.

Owen segir að hann hafi gert mistök þegar hann fór til Newcastle 2005. Hann hafi þá tekið skref niður á við á sínum ferli. Owen segir einnig að Newcastle væri stórt félag aðeins að því leyti að það væri með stóran heimavöll og ætti marga stuðningsmenn.

Shearer, sem er markahæsti leikmaður í sögu Newcastle, deildi myndbandi á Twitter þar Owen talar um að hann hafi ekki geta beðið eftir því að hætta síðustu árin sín á ferlinum.

„Já Michael, við hugsuðum það sama, meðan á 120.000 punda vikulaunum,“ skrifaði Shearer í færslunni.



Owen var fljótur að svara fyrir sig og sendi Shearer væna pillu.

„Ekki viss um að þú sért eins tryggur Newcastle eins og þú segist vera félagi. Mig rámar í að þú hafir verið hársbreidd frá því að semja við Liverpool eftir að Sir Bobby Robson setti þig á bekkinn. Þú reyndir allt sem þú gast til að komast í burtu,“ skrifaði Owen á Twitter.



Ekki hefur gróið um heilt á milli Owens og Shearers eftir tímabilið 2008-09 þegar Newcastle féll. Shearer stýrði Newcastle í síðustu átta leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni en tókst ekki að bjarga því frá falli.

Í bókinni segir Owen að hann hafi verið gerður að blóraböggli og kennt um það sem aflaga fór hjá Newcastle. Owen segir að Shearer hafi verið ósáttur við sig og sakað sig um að hugsa bara um næsta samning.

Frá lokaleik tímabilsins 2008-09, þegar Newcastle féll eftir tap fyrir Aston Villa, hafa Owen og Shearer ekki talast við. Owen segir að það hafi verið synd því þeir hafi verið góðir félagar.

Owen og Shearer léku saman hjá Newcastle tímabilið 2005-06 og þá voru þeir samherjar í enska landsliðinu á árunum 1998-2000.

Shearer setur Owen inn á í lokaleik tímabilsins 2008-09. Newcastle tapaði þá fyrir Aston Villa og féll.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×