Enski boltinn

Michael Owen segir það ranga ákvörðun að hafa ekki farið aftur til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen var frábær með Liverpool á fyrstu árum ferilsins.
Michael Owen var frábær með Liverpool á fyrstu árum ferilsins. Getty/Professional Sport
Michael Owen sér eftir því að hafa ekki farið aftur til Liverpool þegar hann kom aftur til Englands frá Real Madrid sumarið 2015.

Í staðinn fyrir að fara í sitt gamla félag Liverpool þá samdi Michael Owen við Newcastle. Michael Owen er búinn að skrifa endurminningabók, „ Reboot - My Life, My Time“ og þar kemur fram mikil eftirsjá hjá honum.

Félagsskiptin til Newcastle eru í raun það eina sem hann sér eftir á ferlinum.

Newcastle keypti Michael Owen á 17 milljónir punda frá Real Madrid en hann hafði farið frá Liverpool til Real Madrid ári áður. Owen náði aðeins að spila 79 leiki á fjórum árum sem leikmaður Newcastle en hann var mjög óheppinn með meiðsli.





„Ég hefði átt að fylgja tilfinningu minni. Ég vildi ekki fara þangað því í hjarta mínu vildi ég snúa aftur til Liverpool,“ skrifaði Michael Owen en hann skoraði 158 mörk í 297 leikjum með Liverpool frá 1997 til 2004.

Owen fékk snemma tækifæri hjá Liverpool og varð einn allra besti framherji heims á tíma sínum þar. Michael Owen var meðal kosinn knattspyrnumaður Evrópu 2001.

Owen segir að Liverpool hafi ekki getað boðið jafnmikið pening í hann og Newcastle og hann lét því sannfærast um að fara á St James' Park.

„Það var enginn vafi á því í mínum huga að ég var að stíga niður fyrir mig með því að fara þangað. Þetta er ekki skoðun sem stuðningsmenn Newcastle eru hrifnir af en þannig leið mér,“ sagði Owen. Hann spilaði seinna fyrir bæði Manchester United og Stoke City áður en skórnir fóru upp á hillu. Hann varð meistari með United vorið 2011.

Michael Owen segir líka að það hafi fengið mikið á hann þegar stuðningsmenn Newcastle sungu um að kaupverðið á honum hafi verið peningaeyðsla. Hann segist hafa ekki verið sá sami á eftir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×