Enski boltinn

Hefur ekki trú að kona fái að taka við ensku karlaliði á hennar ævi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casey Stoney með aðstoðarmanni sínum.
Casey Stoney með aðstoðarmanni sínum. Getty/Matthew Peters
Knattspyrnustjóri kvennaliðs Manchester United er á því að hún muni ekki lifa það að sjá konu taka við karlaliði í enska boltanum.

Casey Stoney fær tækifæri til að stýra kvennaliði Manchester United á móti Manchester City á Ethiad leikvanginum um næstu helgi. Eftir gott gengi enska kvennalandsliðsins hefur áhugi og virðing fyrir kvennaboltanum á Englandi aukist til mikilla muna. Kvennaliðið fá því að spila eitthvað á stórum leikvöngum karlaliðanna á komandi leiktíð.

Casey Stoney lék sjálf 130 leiki fyrir enska landsliðið er þrátt fyrir mikinn vöxt hjá kvennafótboltanum í Englandi þá segir hún að konur eigi enga möguleika á að fá það tækifæri að stýra karlaliði.

Það hefur gerst í neðri deildunum í Frakklandi en Casey Stoney er á því að ensku liðin séu ekki tilbúin að taka slíkt skref.





„Ég sé það ekki gerast á minni ævi. Ég held að þjóðfélagið hér sé ekki tilbúið fyrir slíkt og hvað þá fótboltinn því fótboltinn er á eftir þjóðfélaginu,“ sagði Casey Stoney.

„Ég sé þetta ekki gerast því kona þarf að vera tíu sinnum betri til að fá svona tækifæri og ef að þú myndir tapa leik þá væri það skrifað á það að þú værir kona en ekki að þú lagði leikinn upp vitlaust eða að markvörðurinn þinn gerði mistök,“ sagði Stoney.

„Mér finnst að konur séu ekki litnar sömu augum og karlar í okkar þjóðfélagi og þangað til að það gerist þá fáum við ekki tækifæri sem þetta. Þetta gerðist auðvitað í Frakklandi og bæði Emma Hayes (stjóri kvennaliðs Chelsea) og Hope Powell (fyrrum þjálfari enska kvennalandsliðsins) voru orðaðar við slíka stöðu en ég held að það hafi bara verið auglýsingabrella,“ sagði Stoney.

„Ef þú ert nógu góð þá áttu að vera nógu góð. Við erum með nóg af meðalgóðum þjálfurum í kvennaboltanum,“ sagði Stoney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×