Skoðun

Haustgestir

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Nú eru skólarnir byrjaðir. Bráðum koma blessuð bréfin. Fasískir pappírar þar sem mælt er með útrýmingu á tveimur dýrategundum. Njálg og lús.

Það má heita merkilegt að í allri umræðu um dýravernd og virðingu fyrir lífríkinu er litið með velþóknun á fjöldamorð á lús og njálg. Ekki er hægt að segja að þessi litlu dýr reki svo heiftarlega við að þau framleiði jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum á ári og bíll sem ekið er rúma 62.000 kílómetra – eða hvað það nú var sem ein belja átti að kosta andrúmsloftið. Nei, njálgurinn og lúsin eru vinveitt vistkerfinu, dvelja við mannslíkamann og dunda sér þar í sakleysi, geta valdið kláða, en hvað er það í samfélagi sem gengur út á spekina: „Ef þú klórar mér skal ég klóra þér.“

Þá er ótalin sú matarsóun sem felst í því að drepa þessi varnarlausu grey með lyfjum og lút. Eða hefur það fólk sem með miskunnarleysi ræðst að þessum smádýrum ekki fylgst með umræðum um að í náinni framtíð muni mannskepnan þurfa að leita í aðrar fæðutegundir en hún borðar nú? Hafa ýmis smádýr verið nefnd sem framtíðarfæða. Ég tel einboðið að njálgurinn hljóti að fara vel í maga því sú tegund þekkir sig, og kann sig, í meltingarfærum okkar og því litlar líkur á að okkur verði bumbult af að snæða þessa litlu próteinríku orma sem líður best í hringferð um okkur sjálf. Um lúsina þarf ekki að hafa mörg orð í þessu sambandi, þekkt er að frændur okkar aparnir éta lýsnar hver af öðrum og því þá ekki við? Maður getur jafnvel séð fyrir sér samkvæmisleiki tengda lúsaleit og -áti.

Gefum grið lúsinni og njálgnum. Verndum allt lífríkið!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×