Erlent

AfD bætti við sig fylgi í tvennum kosningum í Þýskalandi

Eiður Þór Árnason skrifar
Leiðtogar AfD fagna fylgisaukningunni
Leiðtogar AfD fagna fylgisaukningunni Vísir/AP
Þjóðernissinnaði hægriflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) eða Valkostur fyrir Þýskaland bætti í dag við sig fylgi í sambandslöndunum Saxlandi og Brandenborg, en þingkosningar fóru þar fram í dag.

Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, verður þó áfram stærsti flokkurinn í Saxlandi þrátt fyrir fylgistap. Í Brandenborg hlaut flokkur Merkel næst mest fylgi, rétt á eftir Sósíaldemókrötum sem hafa þar lengst af setið við stjórnvölinn.

Í Saxlandi hlutu Kristilegir demókratar 32,1% fylgi en voru með 39% í síðustu kosningum árið 2004. Á sama tíma hlaut AfD 27,5% sem er gríðarmikil aukning frá þeim 9,7% sem flokkurinn hlaut þar síðast. Í Brandenborg fengu Sósíaldemókratar 26,2%, niður úr 31,9% í síðustu kosningum. AfD fékk þar 23,5%, sem var mikil fylgisaukning frá þeim 12,2% sem flokkurinn hlaut þar í síðustu þingkosningum.

Fylgistap stóru flokkanna tveggja var minna en spár gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það hafa flokkarnir ekki séð minna fylgi í fleiri áratugi á þessum svæðum. Forystufólk AfD hafði gert sér vonir um að flokkurinn yrði stærstur í Brandenborg en það hefði orðið mikið áfall fyrir áðurnefnda flokka sem sitja jafnframt saman í ríkisstjórn.


Tengdar fréttir

AfD kalla eftir útgöngu Þýskalands úr ESB

Þýxit gæti verið í nánd en flokksmenn AfD samþykktu í dag að berjast fyrir útgöngu Þýskalands úr ESB verði kröfum AfD um endurbætur innan ESB ekki mætt.

Þaulsætni kanslarinn

Angela Merkel sækir Ísland heim sem gestur fundar norrænna forsætisráðherra. Hefur setið lengur en nær allir Þýskalandskanslarar og getið sér gott orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×