Fótbolti

Greenwood byrjar í fyrsta sinn gegn Rúnari Má og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Greeenwood þykir mikið efni.
Greeenwood þykir mikið efni. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur staðfest að hinn 17 ára Mason Greenwood verði í byrjunarliðinu gegn Astana í Evrópudeildinni annað kvöld. Þetta verður fyrsti keppnisleikur hans í byrjunarliði United. 

Strákurinn vakti athygli fyrir góða spilamennsku á undirbúningstímabilinu og hefur komið inn á í fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Markvörðurinn Sergio Romero, varnarmaðurinn Axel Tuanzebe og miðjumaðurinn Fred verða einnig í byrjunarliðinu á morgun, í fyrsta sinn á tímabilinu.

Walesverjinn Daniel James verður hins vegar fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Rúnar Már Sigurjónsson leikur með Astana. Á morgun fær Skagfirðingurinn tækifæri til að leika gegn liðinu sem hann hefur alltaf stutt, Manchester United.

Leikurinn annað kvöld er fyrsti keppnisleikur liðs frá Englandi og Kasakstan.


Tengdar fréttir

Fjalla um Rúnar Má og ást hans á Man. United

Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson er að fara að spila risastóran leik á morgun þegar hann mætir með liði sínu Astana á Old Trafford í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×