Skoðun

Caravan

Haukur Örn Birgisson skrifar
Ég á von á tvíburum. Þeir eru víst eineggja og eru væntanlegir í lok janúar. Fyrir eigum við tvö börn, sjö og níu ára. Ég reiknaði ekkert sérstaklega með því að eignast fleiri börn og er mjög sáttur með þessi tvö sem ég á fyrir. Fréttirnar af væntanlegri komu tvíburanna voru mér því svolítið sjokk. Nei, ég lýg því. Þær komu alveg flatt upp á mig. Gleði í stressleginni maríneringu. Ein af mínum fyrstu viðbrögðum voru að hafa áhyggjur af praktískum atriðum eins og skorti á svefnherbergjum, ráðningu á au-pair og bílnum mínum, sem nú þarf að skipta út.

Það breytist víst margt þegar maður eignast þriðja og fjórða barnið, sérstaklega ef það gerist á einni nóttu. Allt í einu verður húsnæðið ekki nógu stórt, bíllinn of lítill og allt gamla barnadótið kemur að engum notum. Það passar ekkert fyrir tvíbura. Allt þarf að vera tvöfalt.

En aftur að bílnum. Ég get ekki sagt að ég keyri um á mikilli drossíu en bíllinn minn er samt alveg ágætur. Mitsubishi Outlander, eins og helmingur þjóðarinnar á. Með hryllingi hugsa ég til þess að nú þurfi ég að aka um bæinn á sjö manna bíl. Til að gagn sé að honum þá þarf hann víst að vera með rennihurð. Ekki skánar hann við það. Gott ef rennihurðin verður ekki með parket­klæðningu, eins og í bandarískum úthverfabíómyndum. Þvílík örlög.

Það er alveg ljóst að þetta er að fara að kosta mig að minnsta kosti 400 töffarastig - og á ég nú ekkert alltof mörg fyrir. Nýorðinn miðaldra, of þungur og að verða gráhærður. Strumpa­strætó er líklegast það síðasta sem ég þarf á að halda.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×