Íslenski boltinn

Ólafur: Risastór ákvörðun sem gerir það að verkum að við áttum mjög erfitt uppdráttar að sækja þetta jöfnunarmark

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur var ekki par sáttur með rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk.
Ólafur var ekki par sáttur með rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk. Vísir/Vilhelm
„Það er við hæfi að óska knattspyrnufélaginu Víkingi og leikmönnum til hamingju með bikarmeistaratitilinn,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, beint eftir leik. Hann hélt svo áfram. 

„Hvað fer úrskeiðis í sjálfu sér er risastór ákvörðun sem er tekin af fjórða dómara leiksins sem hefur áhrif á leikinn. Þetta var jafn leikur, tilviljun að hann fer í hendina í vítaspyrnunni, bæði lið að spila prýðilega við erfiðar aðstæður.“ 

„Það er risastór ákvörðun sem gerir það að verkum að við áttum mjög erfitt uppdráttar að sækja jöfnunarmark,“ sagði Ólafur og átti þar við rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk fyrir að stíga, að því virtist óvart, á bringuna á Guðmundi Andra Tryggvasyni eftir að þeir börðust um boltann. 

Ólafur var spurður frekar út í rauða spjaldið.

„Þetta var alveg glórulaus ákvörðun. Það er svo fjarri því að þetta sé ásetningur að stíga ofan á hann eins og við upplifðum það hérna. Þetta er í annað eða þriðja skipti í sumar þar sem fjórði dómari ákveður allt í einu að horfa á leikinn og taka ákvörðun.“

„En svo eru auðvitað hlutir í leiknum og annað sem hefðu eflaust getað verið betri þegar þú tapar en þetta var svona leikur þar sem ákveðnar tilviljanir réðu og erfiðar aðstæður,“ sagði Ólafur einnig um leikinn.  

„4-4-2 tígull, frískir leikmenn, solid vörn. Vorum ánægðir með að koma inn í hálfleikinn eins og staðan var eftir að hafa verið með vindinn í fangið og töluðum um að setja pressu á þá í seinni hálfleik. En því miður var það slegið úr höndunum á okkur,“ sagði Ólafur aðspurður út í hvort eitthvað hefði komið FH-ingum á óvart í uppleggi Víkinga.  

„Já við munum vinna þá alla,“ var svo svar Ólafs við síðustu spurningu dagsins þegar hann var spurður hvort tapið í dag myndi hafa einhver áhrif á síðustu leiki FH í deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×