Sport

Varnarsigur sjóræningjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carolina Panthers fer illa af stað á nýju keppnistímabili í NFL-deildinni. Liðið hefur tapað báðum fyrstu leikjunum sínum en í nótt lá það fyrir Tampa Bay Buccaneers, 20-14.

Bæði lið töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferðinni og var því mikið í húfi. Jameis Winston, leikstjórnandi gestanna, hefur oft spilað betur en gaf þó eina snertimarkssendingu í leiknum auk þess sem að hlauparinn Peyton Barber skoraði eitt snertimark.

Winston náði að halda sér á mottunni í leiknum, kastaði boltanum ekki í hendur andstæðings, og var með samtals 208 sendingajarda - þar af fékk Chris Godwin 121 jarda í átta sendingum. Sendingar Winston heppnuðust þó aðeins í sextán skipti af 25 tilraunum.

Vörn Tampa Bay náði að halda Newton og sóknarliði Panthers algerlega niðri. Tólf af fjórtán stigum heimamanna komu frá sparkaranum Joey Slye auk þess sem að vörn Panthers þvingaði eitt sjálfsmark hjá Buccaneers.

En þrátt fyrir það var Newton í lykilstöðu undir lok leiksins og gat tryggt sínum mönnum sigur. Hann fékk boltann þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og kom sínum mönnum niður að endamarki Buccaneers.

En allt kom fyrir ekki. Christian McCaffrey hljóp með boltann þegar komið var að fjórðu tilraun, náði ekki endurnýjun og þar við sat. Buccaneers fékk því ekki á sig snertimark í leiknum í nótt og hefur aðeins fengið eitt á sig á tímabilinu til þessa.





Panthers á nú erfitt tímabil fyrir höndum og þarf að komst fljótt á beinu brautina, ætli liðið sér að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×