Ragnar Sigurðsson leikur í kvöld 90. leik sinn fyrir íslenska A-landsliðið og verður aðeins þriðji leikmaðurinn sem nær því. Rúnar Kristinsson var stofnmeðlimur klúbbsins árið 2001 og Birkir Már Sævarsson fékk inngöngu fyrr á þessu ári.
Ragnar gerir gott betur en að komast í 90 landsleikjaklúbbinn því hann verður jafnframt leikjahæsti miðvörðurinn í sögu landsliðsins. Ragnar jafnaði við Hermann Hreiðarsson í leiknum á móti Moldóvu um helgina en kemst fram úr honum með því að spila leik númer 90 í kvöld.
Þegar Ragnar kom inn í landsliðið árið 2007 þá var Hermann Hreiðarsson einmitt fyrirliði íslenska landsliðsins.
Í þriðja sæti á eftir þeim Ragnari og Hermanni er síðan Guðni Bergsson, núverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands. Fjórði er síðan félagi Ragnars í miðverðinum í kvöld, Kári Árnason. Kári byrjaði landsliðsferil sinn inn á miðjunni en hefur spilað sem miðvörður eftir að hann kom aftur upp í liðið þegar Lars Lagerbäck tók við liðinu.
Ragnar Sigurðsson lék sinn fyrsta landsleik 22. ágúst 2007 á móti Kanada á Laugardalsvellinum. Það var Eyjólfur Sverrisson sem notaði hann fyrstur landsliðsþjálfara.
Ragnar hefur verið í byrjunarliðinu í 82 af 89 leikjum sínum og leikurinn í kvöld verður 57. keppnisleikur hans fyrir landsliðið en 33 af leikjunum 90 hafa verið vináttulandsleikir.
Leikjahæstu miðverðirnir í sögu íslenska landsliðsins:
(Leikmenn sem hafa spilað stærsta hluta landsliðsferilsins í þeirri stöðu)
Ragnar Sigurðsson 89
Hermann Hreiðarsson 89
Guðni Bergsson 80
Kári Árnason 78
Sævar Jónsson 69
Marteinn Geirsson 67
Atli Eðvaldsson (70) og Eyjólfur Sverrisson (66) spiluðu báðir landsleiki sem miðverðir en spiluðu líka sem bæði framherjar og miðjumenn. Mjög fjölhæfir leikmenn þar á ferðinni.
Ragnar kemst upp fyrir Hermann og verður leikjahæsti miðvörðurinn í sögunni
Óskar Ófeigur Jónsson í Tirana skrifar

Mest lesið




Sjónvarpsbannið í enska boltanum pirrar prinsinn
Enski boltinn

Svona var þing KKÍ
Körfubolti


Kristinn Albertsson nýr formaður KKÍ
Körfubolti

Lærisveinar Alfreðs að stinga af
Handbolti

