Erlent

Sögð ætla að tilkynna síðar í kvöld að formlegt ákæruferli á hendur Trump fyrir embættisbrot verði hafið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pelosi hefur hingað til verið andvíg ákæru.
Pelosi hefur hingað til verið andvíg ákæru. AP/J. Scott Applewhite
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjanna og leiðtogi Demókrata í deildinni, mun tilkynna síðar í kvöld að til standi að hefja formlega rannsókn á því hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hafi framið embættisbrot með því að hafa þrýst á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan andstæðing hans.

Þetta kemur fram á vef Washington Post en demókratar á þingi hafa að undanförnu þrýst mjög á Pelosi og háttsetta demókrata að hefja rannsókn á Trump vegna mögulegra embættisbrota í starfi. Pelosi hefur hingað til verið andvíg kæru en hefur sagt að Úkraínumálið sé vendipunktur í rannsóknum á Trump.



Málið kom upp eftir að fregnir bárust af því í síðustu viku að uppljóstrari innan leyniþjónustu Bandaríkjanna hefði lagt fram kvörtun sem tengdist samskiptum háttsetts embættismanns við erlent ríki. Þar hefði verið gefið óviðeigandi loforð.

Óánægjan nú snýst um símtal Trumps og Volodímírs Selenskíj, forseta Úkraínu. Trump er sagður hafa sett 400 milljóna dala hernaðaraðstoð við Úkraínu á ís fyrir símtalið en síðan lofað Selenskíj aðstoðinni gegn því að Úkraínumenn rannsökuðu Joe Biden, einn líklegasta forsetaframbjóðanda Demókrata, og son hans Hunter Biden sem var í stjórn úkraínsks orkufyrirtækis. 


Tengdar fréttir

Þrýstingur á að kæra Trump fyrir embættisbrot eykst

Ásakanir um að Trump forseti hafi nýtt embætti sitt til að þrýsta á Úkraínustjórn um aðstoð gegn pólitískum andstæðingi hans hafa sett aukinn þrýsting á forystu Demókrataflokksins um að kæra Trump fyrir embættisbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×