Skoðun

Reykja­vík eftir­bátur minni sveitar­fé­laga í mikil­vægum málum

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram hin svokölluðu heimsmarkmið. Þau fela í sér að stefna skal að því að gera heiminn að betri stað fyrir árið 2030 með því að vinna að sautján tilgreindum markmiðum, m.a. að útrýma fátækt, útrýma hungri, tryggja öllum menntun og tryggja jafnrétti kynjanna.

Í febrúar síðastliðinn lagði Flokkur fólksins fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur þess efnis að Reykjavíkurborg innleiddi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti og að hugað yrði sérstaklega að innleiðingu þeirra í leik- og grunnskóla. Þessi tillaga var felld með atkvæðum meirihluta borgarstjórnar. Rökstuðningur meirihlutans fyrir að fella tillöguna var sá að slík innleiðing væri ekki praktísk samhliða innleiðingu menntastefnunnar.

Aðrir hafa þó sýnt betra fordæmi. Nýlega ákvað Kópavogur að innleiða heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna í stefnu sína. Það sem er ekki praktískt í Reykjavík vefst því ekki fyrir þeim í Kópavogi. Felst vandi meirihluta borgarstjórnar mögulega í því að það sé ekki praktískt að samþykkja tillögur sem minnihlutinn leggur til?

Reykjavík ætlar greinilega ekki að taka forystu í innleiðingu heimsmarkmiðanna en nú er kominn tími til að fylgja fordæmi Kópavogs og endurskoða þessa tillögu í ljósi þess að sambærileg tillaga var þar innleidd án vandræða. Látum ekki flokkspólitík koma í veg fyrir uppbyggilegt starf í þágu framtíðarinnar. Innleiðum heimsmarkmiðin í leik- og grunnskólastarf Reykjavíkur.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×