Tyrkneski herinn hefur síðustu sólarhringa verið að safna liði á landamærunum en um helgina boðaði Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands hernaðaraðgerðir sunnan landamæranna. Sagði Erdogan að bæði land- og flugher landsins muni taka þátt í aðgerðunum.
Tyrkir segjast vilja skapa „öryggt svæði“ við landamærin, laust við uppreisnarmenn Kúrda, sem mun þá hýsa á fjórða milljón sýrlenskra flóttamanna sem hafast nú við í Tyrklandi.
Hefur vakið hörð viðbrögð
Ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að afturkalla hersveitir landsins í norðurhluta Sýrlands hefur vakið hörð viðbrögð, bæði í Bandaríkjunum og á alþjóðlegum vettvangi.Eftir að greint var frá fyrirætlunum Tyrklandshers hvöttu leiðtogar í Rojava, sjálfstjórnarhéraði Kúrda í norðausturhluta Sýrlands, að íbúar undirbúi aðgerðir meðfram landamærunum. Segja þeir að íbúar standi frammi fyrir mannúðarslysi.
Trump hefur í hótunum
Svæðið sem Tyrkir hyggjast ráðast inn í er að finna austur af Efrat-fljóti. SDF-sveitir Kúrda hafa ráðið þar ríkjum að undanförnu, með stuðningi Bandaríkjahers. SDF tók virkan þátt í baráttunni gegn liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna ISIS, en Tyrkir líta hins vegar þannig á að SDF-sveitirnar tengist samtökum sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.Trump hefur varið ákvörðun sína að afturkalla hersveitir og segir að aðrir aðilar verði einnig að bera ábyrgð í heimshlutanum. Þó hefur hann hótað því að eyðileggja og tortíma tyrkneskum efnahag, geri tyrknesk stjórnvöld eitthvað sem hann telji vera yfir strikið.