Skoðun

Opinberum starfsmönnum fjölgar óháð árferði

Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar
Útgjöld hins opinbera hafa aukist um 80 prósent að raungildi frá aldamótum. Aukningin er 43 prósent á hvern landsmann. Ekkert lát er á útgjaldaþenslunni samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2020 þar sem áformuð eru 1.000 milljarða króna ríkisútgjöld. Það samsvarar átta milljónum króna á meðalheimili. Aukningin er 73 milljarðar króna sem samsvarar 600 þúsund krónum á meðalheimili.

Aukningu ríkisútgjalda er að stórum hluta varið í launagreiðslur til ríkisstarfsmanna og gögn Hagstofunnar um fjölgun opinberra starfsmanna endurspegla þessa þróun. Störf í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu eru í þessari umfjöllun lögð að jöfnu við störf hjá hinu opinbera, þ.e. bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Fjölgað um 55% frá aldamótum

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, sem er samfelld spurningakönnun, fjölgaði opinberum starfsmönnum mikið á fyrsta áratug aldarinnar fram að bankahruninu. Þeim fjölgaði um rúmlega 14 þúsund, eða 38 prósent, frá árinu 2000 til 2008 samanborið við sjö prósenta fjölgun á almennum vinnumarkaði.

Frá aldamótum til ársins 2018 fjölgaði opinberum starfsmönnum um 20 þúsund, eða 55 prósent, en starfsfólki á almennum markaði um 22 þúsund, eða 18 prósent. Vægi hins opinbera á vinnumarkaði jókst þannig verulega, eða úr 24 prósentum í 29 prósent.

Slök hagstjórn

Í kjölfar bankahrunsins 2008 fækkaði starfsfólki mikið á almennum vinnumarkaði en fjöldinn var óbreyttur hjá hinu opinbera. Það voru skynsamleg viðbrögð við efnahagskreppunni. Hagstofan hefur nýverið hafið birtingu á tölum um vinnumarkaðinn sem byggjast á staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt þeim fækkaði störfum um 13 prósent á almennum vinnumarkaði milli fyrri árshelminga 2008 og 2012 en fjöldi opinberra starfsmanna var óbreyttur. Á næstu þremur árum, 2012 til 2015, fjölgað opinberum starfsmönnum fremur hægt, eða 1,2 prósent á ári að jafnaði. En þegar vaxtarskeiðið mikla hófst, samhliða margföldun erlendra ferðamanna, tók fjölgun opinberra starfsmanna stökk upp á við. Frá fyrri árshelmingi 2015 til sama tíma 2019 fjölgaði opinberum starfsmönnum um tæplega 1.300 að jafnaði árlega eða um 2,2 prósent. Á þessu tímabili fjölgaði hins vegar starfsmönnum á almennum markaði um 4.600 að jafnaði árlega, eða um 3,6%. Þessar tölur bera slakri hagstjórn hins opinbera vitni, þ.e. að eftirspurn eftir starfsfólki sé aukin verulega þegar vinnuaflseftirspurn er í hámarki á almenna markaðnum og kynda þannig undir þenslu á vinnumarkaði og launaskriði.

Bætt nýting skattfjár

Hækkandi meðalaldur er mikil áskorun fyrir Ísland sem og aðrar þjóðir á komandi árum. Þeirri þróun fylgir aukin útgjöld til heilbrigðismála og umönnunar aldraðra og því verður ekki mætt með hækkun skattbyrðar á Íslandi sem er óvíða þyngri. Því er óhjákvæmilegt að marka skýra stefnu um aukna skilvirkni í opinberum rekstri ásamt bættri meðferð skattfjár. Kjörin leið til hagræðingar í rekstri ríkis og sveitarfélaga er aukið vægi samkeppnisrekstrar við veitingu þjónustu þeirra. Þannig má virkja samkeppni til hagræðingar í opinberum rekstri og bæta þannig nýtingu skattfjár.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×