Skoðun

Tvö­faldur vandi mann­kynsins

Böðvar Jónsson skrifar
Þegar horft er til stöðu mannkynsins í dag blasir við tvíþættur vandi. Annars vegar loftslags- og umhverfisváin og hins vegar sú staðreynd að enn eru við lýði styrjaldir, borgarastyrjaldir grimmilegri og óhugnanlegri en áður hefur sést og hryllingsverkin oft og tíðum í beinni útsendingu. Á þessu virðist ekkert lát og nú virðist í uppsiglingu enn ein stríðsátökin, innrás inn í Sýrland, ákveðin af tveimur þjóðarleitogum án samráðs við þing sín og þjóðir. Átök sem munu að venju leiða til ómældra þjáninga og mannfalls almennra borgara meðal Kúrda. Í þessu sambandi vil ég benda á greinina „Veruleiki Kúrda“ á Vísir.is.

Stríðsrekstur í heiminum er vissulega ógn við mannkynið eftir að stórveldin komu sér upp birgðum gereyðingarvopna sem dygðu til að tortíma mannkyninu mörgum sinnum. Blessunarlega hefur enginn leiðtogi þessara kjarnokuvelda látið verða af því að nýta þessar vopnabirgðir. Mannkynið á að baki ótölulegan fjölda borgarastyrjalda og tvær heimsstyrjaldir en hefur lifað þetta af með þeim hræðilegu þjáningum sem af þessu brjálæði leiddi.

Þegar kemur að loftslags- og umhverfisvánni sem skyndilega birtist okkur svo alvarleg og að okkur óviðbúnum þá er kannski aðeins hluti mannkynsins sem viðurkennir hættuna sem steðjar að. Það er þó sextán ára stúlka sem á skömmum tíma hefur hrint af stað fjöldahreyfingu barna, unglinga og ungs fólks um allan heim, þeirra sem erfa heiminn, sem krefjast aðgerða til að snúa af þeirri vegferð sem mannkynið er á. Það er hægt að hefja stríð og ljúka stíði en það sem við stöndum frammi fyrir núna og arfleiðum komandi kynslóðir að er annars eðlis og upp koma í hugann þessi spámannlegu orð sem féllu um miðjai nítjándu öldina.

Veröldin á í erfiðleikum og æsing hennar eflist dag frá degi. Ásjónu hennar er snúið í átt til villu og vantrúar. Slíkt verður ástand hennar, að ekki er rétt og sæmilegt að veita vitneskju um það nú. Spilling hennar mun lengi viðhaldast. En þegar hin tiltekna stund er komin, þá mun það skyndilega koma í ljós, sem veldur skjálfta í limum mannkynsins.

Það hefur varla verið hægt að orða þetta betur miðað við það sem við okkur blasir.

En mannskepnan er ótrúleg í hroka sínum og sjálfbyrginghætti sem birtist manni í því að einstaklingar halda því fram, að því er virðist, í alvöru að skjóta eigi sendiboðann, sextán ára unglingsstúlkuna Gretu.  H.C. Andersen var glöggur á mannlegt eðli og fyrir mér er Greta Thunberg raunverulegur persónugerfingur barnsins í sögunni um Nýju fötin keisarans. En í dag er heimurinn eitt þorp og keisararnir margir en Greta opinberar nekt þeirra allra.

Höfundur er lyfjafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×