Orkustofnun hefur kallað eftir nýjum virkjunarhugmyndum vegna fjórða áfanga rammaáætlunar. Er það gert að beiðni verkefnisstjórnar áætlunarinnar.
Í tilkynningu frá Orkustofnun segir að þar sem þriðji áfangi rammaáætlunar hafi enn ekki verið afgreiddur á Alþingi hafi ekki verið kallað eftir nýjum hugmyndum vegna fjórða áfanga til þessa.
Gert er ráð fyrir að verkefnastjórnin muni fjalla um alla virkjunarkosti sem eru í biðflokki rammaáætlunar. Vilji aðilar að fjallað verði um nýjar útfærslur virkjunarkosta í biðflokki geta þeir sent slíkar hugmyndir til Orkustofnunar fyrir 1. mars næstkomandi.

