Erlent

Rick Perry kynnir afsögn viku eftir að hafa verið spurður í Svartsengi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rick Perry í Svartsengi: "Ég verð ekki orkumálaráðherra að eilífu.“
Rick Perry í Svartsengi: "Ég verð ekki orkumálaráðherra að eilífu.“ Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, hefur tilkynnt Donald Trump forseta að hann hyggist segja af sér embætti. Bandarískir fjölmiðlar greindu frá þessu í kvöld og höfðu tíðindin eftir ónafngreindum embættismanni.



Sagt var að Perry hefði rætt þetta við forsetann um borð í Air Force One í dag en þeir flugu saman í forsetaflugvélinni til Texas. Donald Trump staðfesti svo fréttirnar sjálfur í kvöld. 



„Við erum þegar búnir að finna mann í stað hans,“ sagði Trump við fréttamenn en hann var að hefja kosningaherferð í Texas. „Rick hefur unnið frábært starf. En það var kominn tími,“ sagði Trump.



Orðrómur hefur gengið um nokkurt skeið um að Perry hyggist segja af sér embætti en hann hefur með beinum hætti blandast inn í Úkraínu-mál Donalds Trumps. 



Trump gaf þó til kynna að brotthvarf orkumálaráðherrans tengdist ekki Úkraínumálinu heldur hefði Perry ýjað að þessu fyrir hálfu ári. 



„En hann er með mjög stór áform. Honum á eftir að farnast mjög vel. Við höfum eftirmann hans, við munum tilkynna það fljótlega,“ sagði forsetinn.

Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, svarar spurningum fréttamanna í Svartsengi.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Orkumálaráðherrann var á Íslandi í síðustu viku til að flytja erindi á Hringborði Norðurslóða en heimsótti einnig orkuverið í Svartsengi. Fréttamaður Stöðvar 2 lagði þá þessa spurningu fyrir Perry:



Það hafa verið vangaveltur um að þú sért á leið úr embætti. Munt þú enn verma stólinn í lok þessa árs?



„Það hafa verið fréttir um þetta núna í níu mánuði, að ég sé á leiðinni út. Einhvern daginn, ef þeir halda áfram að segja þetta, munu þeir hafa rétt fyrir sér. Ég verð ekki orkumálaráðherra að eilífu,“ svaraði Rick Perry í Svartsengi fyrir viku.



Hér má sjá Perry svara spurningunni í frétt Stöðvar 2 frá heimsókninni:


Tengdar fréttir

Perry segir norður­slóðir barma­fullar af orku­auð­lindum

Orkumálaráðherra Bandaríkjanna segir norðurslóðir barmafullar af auðlindum eins og gasi sem megi nýta á skynsaman hátt íbúunum þar og heimsbyggðinni til hagsbóta. Ákvörðun ríkisstjórnar Donalds Trump um nýtingu auðlinda í Alaska sé gott dæmi um þetta.

Orkumálaráðherra Bandaríkjanna sér á báti við Hringborð norðurslóða

Orkumálaráðherra Bandaríkjanna nefndi loftslagsbreytingar ekki á nafn í ávarpi sínu við setningu Hringborðs norðurslóða í dag en skaut föstum skotum að ríkjum sem hann sagði boðflennur á norðurslóðum. Forystufólk annarra ríkja lagði hins vegar áherslu á að þjóðir heims tækju höndum saman til að vinna gegn loftslagsbreytingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×