Erlent

Merkel bað Erdogan um að hætta við innrásina

Andri Eysteinsson skrifar
Recep Erdogan, forseti Tyrklands
Recep Erdogan, forseti Tyrklands Getty/Anadolu Agency
Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, ræddi símleiðis við tyrkneska forsetann Recep Tayyip Erdogan í dag. Reuters hefur það eftir talsmanni þýsku ríkisstjórnarinnar að leiðtogarnir hafi í símtalinu rætt innrás tyrkneskra hersveita inn í Sýrland, hernaðaraðgerð sem Tyrkir kalla Vor Friðar. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að Merkel hafi krafist þess að innrás Tyrkja yrði stöðvuð tafarlaust.

Yfirlýst markmið Tyrkja með innrásinni er að koma í veg fyrir griðasvæði hryðjuverkamanna nærri suðurlandamærum Tyrklands við Sýrland. Aðgerðirnar beinast gegn meðlimum PKK og ISIS.

Innrásin hófst 9. október síðastliðinn og hafa Tyrkir nú þegar náð yfirráðum yfir landamæraborginni Ras al-Ayn. Á blaðamannafundi í Istanbúl greindi Erdogan frá því að Tyrkir hefðu náð völdum í Tel Abyad, vestur af Ras al-Ayn.

Á fundinum lýsti Erdogan fyrirætlunum tyrkneskra yfirvalda. „Við einbeitum okkur fyrst að 120 kílómetra svæðinu milli Ras al-Ayn og Tel Abyad. Þannig skiptum við þessu 480 kílómetra yfirráðasvæði hryðjuverkamanna í tvennt,“ sagði Erdogan og bætti svo við að því næst myndu Tyrkir sækja að bæjunum Hasaka í austri og Ain al-Arab í vestri. „Við munum fara um 35 kílómetra inn í landið, líkt og áður hefur verið greint frá“, sagði Erdogan Tyrklandsforseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×