Innlent

Gerla­mengun í vatni frá Grá­brókar­veitu stað­fest

Atli Ísleifsson skrifar
Vatnsbólið þar þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.
Vatnsbólið þar þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Veitur
Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafa ítrekað tilmæli frá í gær um að viðskiptavinir vatnsveitu Veitna úr Grábrókarhrauni sjóði neysluvatn. Staðfesting barst í morgun að vatnið þar sé gerlamengað. Bæði kólí og E.coli gerlar fundust í sýninu sem gruninn vakti.

Vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Um miðja næstu viku verður tekinn í notkun lýsingarbúnaður við vatnsbólið og skorað er á fólk að sjóða neysluvatn þangað til.

„Veitur hófu daglega sýnatöku úr vatnsbólinu þegar fyrst kviknaði grunur um gerlamengun í því á fimmtudag í síðustu viku. Þau sýni reyndust mengunarlaus þar til grunur kviknaði aftur um gerlamengun í gær. Í morgun fékkst staðfesting á þeim.

Vatnsbólið í Grábrókarhrauni var tekið í notkun árið 2007 og þetta er í fyrsta skipti sem notendur þess eru hvattir til að sjóða neysluvatnið.

Þjónustusæði Grábrókarveitu.Veitur
Eftir að grunur var um gerla í vatninu á dögunum var ákveðið að setja upp lýsingarbúnað við vatnsbólið í Grábrókarhrauni. Stefnt er að því að hann verði kominn í notkun á miðvikudag en hann mun tryggja öryggi vatnsins.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Veitur leggja áherslu á að notendur sjóði neysluvatn þar til búnaðurinn verður virkur enda geta gerlasmit valdið slæmum sýkingum hjá fólki, einkum þeim sem eru viðkvæm fyrir, þar með talin eru börn og eldra fólk.

Starfsfólk Veitna leggur nú kapp á að ná til sem flestra viðskiptavina og eftirlitsaðilum er haldið vel upplýstum um framvindu,“ segir í tilkynningu frá Veitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×