Erlent

Árásin á bæna­hús gyðinga sögð hægri­öfga­hryðju­verk

Kjartan Kjartansson skrifar
Göt eftir byssukúlur eru sjáanleg á útidyrahurð bænahússins í Halle an der Saale eftir skotárásina á mánudag.
Göt eftir byssukúlur eru sjáanleg á útidyrahurð bænahússins í Halle an der Saale eftir skotárásina á mánudag. Vísir/EPA
Innanríkisráðherra Þýskalands segir að skotárásin við bænahús gyðinga í borginni Halle á mánudag hafi verið hægriöfgahryðjuverk. Vopnaður maður skaut tvo til bana og særði nokkra til viðbótar í árásinni sem virðist hafa verið innblásin af gyðingahatri.

Árásarmaðurinn, sem er 27 ára gamall, er sagður hafa verið með um fjögur kíló af sprengiefni í bíl sínum. Peter Frank, ríkissaksóknari Þýskalands, segir að maðurinn hafi lagt á ráðin um fjöldamorð. Hann verður ákærður fyrir tvö morð og níu tilraunir til manndráps, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Saksóknarar telja jafnframt að fyrir manninum hafi vakað að hafa áhrif á heimsbyggðina með því að apa eftir fjöldamorðingja sem myrtu á sjötta tug manna í tveimur moskum á Nýja-Sjálandi fyrr á þessu ári. Árásarmaðurinn er sagður hafa streymt beint frá árásinni á bænahúsið líkt og öfgamaðurinn á Nýja-Sjálandi. Myndbandið hefur síðan verið fjarlægt af streymisforritinu Twitch.

Maðurinn skaut konu úti á götu og karlmann sem sat á kebabstað í nágrenni bænahússins þegar honum mistókst að komast inn í það. Vitni hafa sagt að maðurinn hafi verið þungvopnaður og frásagnir hafa borist af því að hann hafi reynt að kveikja í sprengiefninu við bænahúsið.

Um sextíu manns voru við guðsþjónustu í bænahúsinu í tilefni af Yom Kippur, árlegrar föstu gyðinga. Talsmenn samtaka gyðinga í Þýskalandi hafa deilt hart á lögregluna fyrir að hafa ekki verið með viðbúnað við bænahús vegna hátíðarinnar. Þeir telja að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina hefðu lögreglumenn verið staðsettir við bænahúsið.


Tengdar fréttir

Tveir látnir eftir skotárás í Halle

Lögregla í Þýskalandi segir að tveir séu látnir hið minnsta og margir hafi særst í eftir skotárás í bænum Halle fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×