Enski boltinn

Man. City á toppnum og Everton í sjötta sæti ef liðin hefðu nýtt öll góðu færin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton þurfa að nýta færin sín mun betur.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton þurfa að nýta færin sín mun betur. Getty/Alex Livesey
Liðin í ensku úrvalsdeildinni eru misgóð í að nýta marktækifærin sín og staðan í deildinni væri allt önnur ef þau hefðu nýtt öll þessi góðu færi sín.

Sky Sports hefur tekið það saman hvernig staðan í ensku úrvalsdeildinni liti út ef liðin tuttugu hefði nýtt öll færin í leikjum sínum.

Hér er um að ræða tölfræði Opta yfir „expected goals (xG)“ eða „áætluð mörk“ út frá góðum færum liðanna.

Liverpool er með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eins og er en væri sex stigum á eftir Manchester City ef liðin hefðu nýtt öll góðu marktækifærin sín.

Hér er um tólf stiga sveiflu að ræða og það er ljóst á þessu að heppnin hefur verið mun meira með Liverpool liðinu en leikmönnum Manchester City það sem af er tímabilsins.





Manchester United og Everton hafa bæði verið gagnrýnd fyrir frammistöðu sína í vetur en þessi tölfræði sýnir að helsta vandamál þeirra er að nýta færin.

Manchester United liðið væri í þriðja sæti í töflunni eða fjórum sætum ofar en liðið er í rauninni. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton myndu aftur á móti hækka sig um tíu sæti og vera í sjötta sæti.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley væri líka átta sætum ofar og sætu í 5. sæti deildarinnar ef að liðin hefðu nýtt færin sín. Watford er á botni deildarinnar en væri níu sætum ofar hefðu færin þeirra skilað marki.  

Það eru líka lið sem hafa grætt mikið á slæmri færanýtingu mótherja sinna.

Nýliðar Sheffield United væru þannig tíu sætum neðar (í 18. sæti) og Crystal Palace væri núu sætum neðar eða í 15. sæti.

Leicester City er í þriðja sæti deildarinnar en væri sjö sætum neðar ef liðin hefðu nýtt færin sín.

Hér fyrir neðan má sjá töfluna hjá Sky Sports ef öll færin hefðu endað með marki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×