Erlent

Leiðtogi ISIS sagður hafa sprengt sig í loft upp í miðri aðgerð sérsveita Bandaríkjahers

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi.
Abu Bakr al-Baghdadi. Vísir/AP
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa greint frá því í morgun að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, hafi látist í sérstakri aðgerð sérsveita Bandaríkjahers í Idlib-héraði í norðurhluta Sýrlands. Búist er við tilkynningu frá Bandaríkjaforseta klukkan eitt í dag að íslenskum tíma.

CNN hefur eftir heimildarmönnum sínum innan bandaríska stjórnkerfisins aðgerðin hafi verið framkvæmd í gær og að Baghdadi hafi látist er hann virkjaði sprengjubelti sem hann bar um sig miðjan. Áður hefur verið greint frá því að hann hafi ávallt sofið með sprengjubelti utan um sig af ótta við að vera handsamaður.

Endanleg staðfesting á þvi hvort um Baghdadi hafi verið að ræða bíður endanlegar staðfestingar á meðan verið er að kanna DNA og önnur sönnunargögn á vettvangi. Engu að síður telja stjórnvöld í Bandaríkjunum að al-Baghdadi hafi látist í aðgerðinni.

Hvíta húsið hefur ekki viljað staðfesta fréttirnar en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að koma með „meiriháttar tilkynningu“ klukkan eitt að íslenskum tíma í dag. Tilkynningin tengist utanríkismálum að því er fram kemur á vef CNN. Sjálfur tísti Trump í nótt um að eitthvað „mjög stórt“ hafi verið að gerast.

Baghdadi hefur verið lengi í felum en hann hefur stýrt ISIS og forverum þess frá árinu 2010, líkt og ítarlega var fjallað um hér.

Eftir sigra ISIS sumarið 2014 steig Baghdadi í pontu í Nour al-Din moskunni í Mosul og lýsti yfir stofnun kalífadæmis Íslamska ríkisins í Írak og Sýrlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×