Í yfirlýsingu við fréttamenn í forsetahöllinni La Moneda sagði Piñera að hann hafi greint öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar frá því að breytinga sé að vænta til að bregðast við kröfum mótmælenda. Hann sagði þó ekki hverjar breytingarnar yrðu né hvenær þær gengju í gegn.
Reuters-fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að til standi að skipta út að minnsta kosti níu ráðherrum, þar á meðal innanríkis-, varnarmála-, efnahags-, samgöngu- og umhverfisráðherrunum.
Mótmælin í Síle hófust eftir að tilkynnt var um verðhækkanir í neðanjarðarlestarkerfi Santiago. Þau þróuðust út í óeirðir sem leiddu til dauða að minnsta kosti sautján manns og mikils eignatjóns. Talið er að um 7.000 manns hafi verið handteknir.
Gagnrýnendur forsetans segja að aðfarir hans minni á einræðisstjórn Augusto Pinochet, herforingja. Piñera sagðist í morgun ætla að aflétta útgöngubanni annað kvöld ef aðstæður leyfðu.
Mótmælin í gær fóru friðsamlega fram. Áætlað er að um milljón manns hafi safnast saman í höfuðborginni, blásið í flautur, barið í potta og pönnur og krafist breytinga, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Við heyrðum öll skilaboðin. Við höfum öll breyst,“ tísti forsetinn um mótmælin í gær.
Todos hemos escuchado y comprendido mensaje de los chilenos. He pedido a todos los ministros poner sus cargos a disposición. Trabajamos en conformación de un nuevo equipo que represente el cambio y lidere los nuevos tiempos, + justos y solidarios, q los chilenos quieren y merecen
— Sebastian Piñera (@sebastianpinera) October 26, 2019