Þrír voru fluttir á slysadeild eftir slysið sem varð á gatnamótum Suðurlandsvegs og Vesturlandsvegs. Tildrög voru þau að maðurinn ók bíl sínum yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að árekstur varð við bíl sem kom úr gagnstæðri átt.
Ökumaður hins bílsins brotnaði á vinstri lærlegg í árekstrinum og farþegi sama bíls hlaut tognun og ofreynslu á lendarhrygg, mar á mjaðmagrind og yfirborðsáverka á hendi.
Í blóði mannsins mældist amfetamín, kókaín og tetrahýdrókannabínól auk lyfjanna alprazólam og díazepam, sem og nordíazepam, sem er virkt umbrotsefni díazepams.
Í matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði sem lögð var fram í málinu kom fram að ökumaðurinn hafi eftir töku ávana- og fíkniefnanna verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið.
Styrkur annar lyfsins töluvert hærri en ráðlagður skammtur
Lyfin tvö sem greindust einnig í blóði mannsins hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið og draga úr aksturhæfni í lækningalegum skömmtum. Í blóði mannsins reyndist styrkur díazepams vera eins og eftir töku lækningalegra skammta en styrkur alprazólams í blóðinu var töluvert hærri en eftir ráðlagðan lækningalegan skammta af lyfinu.Í matinu kom fram að fullvíst hafi verið að ökumaðurinn hafi ekki getað stjórnað ökutæki örugglega af þessum sökum.

Maðurinn hefur fjórum sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, síðast í febrúar 2018 er hann var dæmdur í 60 daga fangelsi.
Við ákvörðun refsingar var litið til brotasögu mannsins en einnig til þess að hann hafi játað brot sín skýlaust. Þótti hæfileg refsing átta mánaða fangelsi , skilorðsbundið til tveggja ára.
Þá þarf hann að greiða alls 1,1 milljón í bætur, 700 þúsund til ökumanns hins bílsins og 400 þúsund til farþega í hinum bílnum, sem hlutu meiðsli í slysinu. Auk þess þarf maðurinn að greiða 1,7 milljónir í málskostnað.