Íslenski boltinn

Guðmundur Andri: Kem til baka með mikið sjálfstraust

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Andri í bikarúrslitum gegn FH fyrr í sumar.
Guðmundur Andri í bikarúrslitum gegn FH fyrr í sumar. Vísir/Vilhelm
Guðmundur Andri Tryggvason, leikmaður IK Start í norsku B-deildinni, er kominn aftur til liðsins eftir að hafa verið á láni hjá Víkingum í Pepsi Max deildinni í sumar og orðið bikarmeistari með liðinu. Guðmundur Andri var í viðtali við heimasíðu Start fyrr í dag.

Hinn 19 ára gamli Guðmundur Andri kom til Start í janúar 2018 frá núverandi Íslandsmeisturum KR. Hann fékk hins vegar ekki nægilega mikið að spila hjá Start og ákvað að stökkva á tilboð Víkings fyrir sumarið og leika undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar.  

„Það var mjög góð ákvörðun að fara til Íslands á láni á þessum tímapunkti,“ sagði Guðmundur í viðtalinu. 

„Ég kem heim með mun meira sjálfstraust en þegar ég fór frá Noregi í vor. Þá hjálpaði það mér andlega að spila reglulega í efstu deild og nú er ég tilbúinn að berjast fyrir sæti mínu í liðinu.“ 

Jóhannes Harðarson er þjálfari Start og skrifaði hann undir tveggja ára framlengingu á samningu sínum í gær. Guðmundur ber honum vel söguna. 

„Það er þægilegt að vera með íslenskan þjálfara. Við þekkjumst vel og Jóhann hefur hjálpað mér töluvert í gegnum tíðina. Það er gott að vera með þjálfara sem þekkir mann vel.“ 

Sem stendur er Start í 3. sæti norsku B-deildarinnar með 56 stig þegar þrír leikir eru eftir. Liðið er þremur stigum á eftir Sandefjörd í 2. sætinu en Íslendingalið Álasund er nú þegar búið að tryggja sæti sitt í efstu deild. Efstu tvö lið B-deildarinnar fara beint upp í norsku úrvalsdeildina á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil um að komast upp.


Tengdar fréttir

Guðmundur Andri fer aftur til Start í haust

Guðmundur Andri Tryggvason, sem vakið hefur athygli fyrir frábæra frammistöðu með Víkingi í Pepsi Max-deildinni, var í viðtali hjá Guðjóni Guðmundssyni í Sportpakkanum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×