Erlent

Uppþot þegar Repúblikanar reyndu að brjóta sér leið inn á lokaðan fund

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ringulreið skapaðist í þinghúsinu.
Ringulreið skapaðist í þinghúsinu. AP/Patrick Semasky
Það ætlaði allt um koll að keyra í þinghúsi Bandaríkjanna í dag eftir að fresta þurfti lokuðum vitnisburði í tengslum við Úkraínu-málið þegar hópur þingmanna Repúblikana reyndi að brjóta sér leið inn í fundarherbergið.

Laura Cooper, háttsettur embættismaður sem sérhæfir sig í málefnum Úkraíunu í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, átti að bera vitni á lokuðum fundi þriggja nefnda í fulltrúadeildinni sem rannsaka hvort að Donald Trump hafi framið embættisbrot í tengslum við samskipti hans og forseta Úkraínu.

Nánir samverkamenn Trump á þingi brutu sér leið inn í herbergi þar sem Cooper átti að bera vitni. Fresta þurfi yfirheyrslunum en Repúblikanarnir tístu um aðgerðir sínar, er þær áttu sér stað.

Í frétt Guardian segir að nefndarmenn Demókrata hafi ekki verið par sáttir við þetta athæfi þingmannanna og að þó nokkur læti hafi skapast er Demókratar og Repúblikanar tókust á.

Þingmennirnir sem stóðu að þessum aðgerðum sitja ekki í þeim þremur nefndum sem standa nú að rannsókn á embættisfærslum Trump og höfðu þeir því ekki heimild til þess að sitja yfirheyrsluna.

Nokkrir núverandi og fyrrverandi embættismenn utanríkisþjónustu Bandaríkjanna og Hvíta hússins hafa borið vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar síðustu vikur. Þeir hafa lýst því hvernig Trump fól Rudy Giuliani í reynd að stýra skuggautanríkisstefnu gagnvart Úkraínu sem virðist hafa verið miðuð að því að tryggja pólitíska hagsmuni Trump sjálfs frekar en sameiginlega öryggishagsmuni Úkraínu og Bandaríkjanna.

William Taylor, hæst setti erindreki Bandaríkjanna í Úkraínu, er sagður hafa greint þingnefnd sem rannsakar möguleg embættisbrot Trump frá því í gær að forsetinn hafi stöðvað hernaðaraðstoðin og neitað að veita Zelenskíj fund sem úkraínski forsetinn sóttist eftir nema hann féllist á að rannsaka pólitíska andstæðinga Trump.


Tengdar fréttir

Háttsettur erindreki segir Trump hafa tengt aðstoð við Úkraínu við rannsókn á pólitískum andstæðingum

William B. Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, greindi rannsakendum sem rannsaka möguleg embættisbrot Donald Trump forseta Bandaríkjanna, frá því í dag að Trump hafi neitað að veita Úkraínu hernaðaraðstoð og að hann hafnað því að funda með forseta Úkraínu í Hvíta húsinu nema hann myndi heita því að rannsaka andstæðinga Trump í bandarískum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×