Skoðun

Barn síns tíma

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Þak á aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja er barn síns tíma og er til þess fallið að draga úr slagkrafti lítillar fiskveiðiþjóðar. Það er æskilegt að afnema það. Takist ekki að ná sátt um það er mikilvægt að hækka þakið.

Vafalaust var þakið mikilvægur þáttur í að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið sem gerbreytti lífsgæðum á Íslandi. Útgerðir voru minni og því batt löggjafinn ekki hendur þeirra í reynd á þeim tíma. Þakið, sem miðast við tólf prósent af aflahlutdeild allra tegunda, kom því ekki að sök fyrst um sinn.

Nú er svo komið að Brim er komið yfir þakið eftir kaup á tveimur útgerðum. Við það tilefni eiga stjórnmálamenn að sýna þor og sníða vankanta af kerfinu.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru fremur lítil á alþjóðlegan mælikvarða. Jafnvel Brim, sem hefur lengi verið við leyfilegt hámark, væri ekki á meðal stærstu útgerða í Noregi.

Sjávarútvegur er eina atvinnugrein landsins sem skarar fram úr á heimsvísu. Engu að síður hafa stjórnmálamenn ekki leitað leiða til að lyfta henni upp í von um æ betri árangur heldur þess í stað lagt stein í götu hennar með hærri sköttum en þekkist annars staðar og hneppt hana í þá fjötra að fyrirtækin mega ekki verða tiltölulega stór.

Um 98 prósent af sölu sjávarútvegsfyrirtækja er erlendis. Þau eiga því nær eingöngu í alþjóðlegri samkeppni. Við þær aðstæður geta stjórnmálamenn ekki leyft sér að haga sér með þessum hætti.

Skattheimtan og kvótaþakið er í raun uppskrift að hnignun atvinnuvegarins. Það er ekki sjálfgefið að íslenskur sjávar­útvegur verði í fremstu röð þegar fram í sækir. En velgengni hans er mikilvæg fyrir þjóðarbúið.

Það er mikilvægt að fagna aukinni hagkvæmni en ekki að lifa í sífelldum ótta við samþjöppun. Hagkvæmur og verðmætur útflutningur er lykillinn að góðum lífsgæðum. Útgerðir verða að fá að bregðast við breyttum aðstæðum.

Það þarf ekki að vera landi og þjóð fyrir bestu að kvótaeign sé of dreifð. Það kann að draga úr getu fyrirtækjanna til að keppa á heimssviðinu. Fari svo myndi það leiða til þess að útgerðir geti ekki greitt jafn há laun, fjárfesti í minni mæli í tækni sem bitna mun á þekkingarsamfélaginu hér á landi, hagnaður mun dragast saman og skattgreiðslur minnka.

Hnignun fyrirtækja og jafnvel atvinnuvega er oft nær en mann grunar. Það er ekkert sjálfgefið í viðskiptum. Þess vegna verður ríkisvaldið að huga betur að fjöregginu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×