Lögreglumenn hjá embætti héraðssaksóknara rannsaka bæði meint brot einstaklinga gegn valdstjórninni og kærur á hendur lögreglumönnum. „Það gerist oft að sama atvik leiðir til rannsóknar á meintu valdstjórnarbroti og rannsóknar á meintu broti lögreglu í starfi. Það getur verið óheppilegt,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, spurð nánar um umsögnina.
Héraðssaksóknari fer með ákæruvald í alvarlegustu brotum á hegningarlögum svo sem manndráp og alvarleg líkamsárásarmál og kynferðisbrotamál. Slík mál eru rannsökuð af lögreglustjórum, hverjum í sínu umdæmi. „Lögreglumenn sem koma að þessum málum eru því oft vitni þegar málin fara fyrir dóm og kallar það á nokkur samskipti við lögreglumenn,“ segir Kolbrún.
Hún bendir einnig á að brot lögreglumanna sem framin eru utan vinnutíma, séu rannsökuð af viðkomandi lögreglustjóra eins og önnur brot. „Það getur að sjálfsögðu verið óheppilegt að samstarfsmenn rannsaki brot vinnufélaga sinna,“ segir Kolbrún.

Aðspurð um ákæruvald hjá slíkri stofnun segist Kolbrún ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort slík leið væri heppileg. Það kalli á sérstaka skoðun en misjafnt sé á Norðurlöndum hvor leiðin sé farin.
„Öll umræða um málaflokkinn er hins vegar af hinu góða enda miklir hagsmunir fólgnir í því að traust ríki um hann, bæði hjá borgurunum og eins hjá starfsmönnum lögreglu,“ segir Kolbrún.
Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir helgi hefur nefnd um eftirlit með lögreglu einnig veitt umsögn um málið og telur nefndin að þörf sé fyrir öflugra eftirlit með lögreglu og ríkari og víðtækari rannsóknarheimildir en nefndin hefur nú.
Í umsögninni segir að það myndi auka slagkraft nefndarinnar verulega „ef bæði lagaheimildir nefndarinnar og starfsumhverfi gerðu það kleift að hjá nefndinni væri starfandi rannsakandi sem kæmi að rannsókn þeirra mála sem nefndin hefði til meðferðar hverju sinni“.
Hlutverk nefndarinnar er að koma kvörtunum vegna lögreglu í viðeigandi farveg og eftir atvikum koma með athugasemdir við afgreiðslu og meðferð mála. Nefndin hefur hins vegar engar sjálfstæðar rannsóknarheimildir og getur ekki beitt lögreglumenn eða lögreglustjóra viðurlögum.