Innlent

Fjöldi gesta á vellinum myndi tak­markast við 5000

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Framkvæmdir við nýtt skólaþorp við Laugardalsvöll hafa staðið yfir frá í sumar.
Framkvæmdir við nýtt skólaþorp við Laugardalsvöll hafa staðið yfir frá í sumar. Vísir/Anton Brink

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerir athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðkomuleiðum að Laugardalsvelli vegna skólaþorpsins sem á að reisa við völlinn. Fjöldi gesta á viðburðum á vellinum, hvort sem um ræði knattspyrnuleiki eða tónleika, myndi takmarkast við fimm þúsund manns yrði af breytingunum.

Þetta kemur fram í umsögn lögreglunnar sem birt var í Skipulagsgátt í gær. Þar segir að aðkomuleiðir bæði að Laugardalsvelli og öðrum íþróttasvæðum í Laugardalnum séu nú þegar flóknar og í einhverjum tilfellum seinfarnar.

Því sé afar líklegt að útkallstími lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lengist til muna verði af fyrirhuguðum breytingum. Þar með sé öryggi gesta á Laugardalsvelli stefnt í hættu. Lögreglan leggur áherslu á að tvær virkar aðkomuleiðir hið minnsta verði tryggðar við völlinn og segir það bæði eiga við þegar um ræði hefðbundna notkun og stærri viðburði þegar töluvert meiri mannfjöldi sé á svæðinu.

„Á tónlistarviðburðum á Laugardalsvelli hafa komið allt að 20.000 manns. Ef um eina virka aðkomuleið verði að ræða sér [lögreglan á höfuðborgarsvæðinu] ekki annað en að fjöldi gesta verði einskorðaður við 5000 gesti hvort sem um sé að ræða tónlistarviðburði eða knattspyrnuleiki/landsleiki, að öðrum kostum er öryggi gesta ekki tryggt,“ segir í umsögn lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×