Erlent

Þingið samþykkir að halda áfram rannsókn á Trump

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
„Þetta er sorgardagur. Það býður sig enginn fram til þingmennsku með það í huga að ákæra sitjandi forseta,“ sagði Nancy Pelosi, Demókrati og forseti þingsins.
„Þetta er sorgardagur. Það býður sig enginn fram til þingmennsku með það í huga að ákæra sitjandi forseta,“ sagði Nancy Pelosi, Demókrati og forseti þingsins.
Bandarískir fulltrúadeildarþingmenn greiddu atkvæði í fyrsta skipti um rannsókn á meintum embættisbrotum Donalds Trump forseta í dag. Lagt var til að halda opinberar yfirheyrslur og greiddu 232 þingmenn atkvæði með, 196 gegn. Einungis tveir Demókratar sögðu nei við tillögunni. Enginn Repúblikani tók afstöðu gegn forsetanum.

Þetta þýðir að þingið hefur í fyrsta skipti tekið afstöðu til rannsóknarinnar með formlegum hætti. Sýnir atkvæðagreiðslan fram á að rannsóknin nýtur stuðnings þingmanna. Niðurstaðan bendir til þess að nægur stuðningur gæti orðið til þess að ákæra Trump formlega til embættismissis ef rannsóknin skilar nægilegum sönnunargögnum.

„Þetta er sorgardagur. Það býður sig enginn fram til þingmennsku með það í huga að ákæra sitjandi forseta,“ sagði Nancy Pelosi, Demókrati og forseti þingsins. 

Steve Scalise, einn æðsti Repúblikani deildarinnar, var harðorður í garð Demókrata. Sagði að unnið væri eftir „sovéskum reglum“.

Rannsóknin hófst eftir að uppljóstrari innan leyniþjónustunnar lagði fram formlega kvörtun vegna símtals Trump við Volodímír Zelenskíj, forseta Úkraínu, 25. júlí þar sem Trump lagði fast að úkraínska forsetanum að rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegan mótframbjóðanda Trump í forsetakosningum næsta árs. Taldi uppljóstrarinn að Trump hefði þannig misbeitt valdi sínu vegna persónulegra pólitískra hagsmuna hans.

Ef Trump er ákærður til embættismissis fara réttarhöld fram fyrir öldungadeildinni. Þar myndi forseti hæstaréttar gegna hlutverki dómara og þingmenn væru kviðdómendur. Tvo þriðju hluta þingmanna þyrfti til þess að sakfella forsetann. Það telst hæpið þar sem Repúblikanar eru með meirihluta þingsæta.


Tengdar fréttir

Reyndi að bæta við eftirrit símtals Trump og Zelensky

Alexander S. Vindman, undirofursti, sagði þingmönnum í gær að honum hafi verið svo brugðið yfir framferði Trump gagnvart Úkraínu að hann hafi gert lögfræðingum þjóðaröryggisráðsins viðvart í tvígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×