Enski boltinn

ESPN: Jose Mourinho hefur áhuga á því að taka við Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Getty/Claudio Villa
Jose Mourinho gæti tekið við enska úrvalsdeildarfélaginu Arsenal í næstu framtíð ef félagið ákveður að reka Unai Emery.

Heimildir ESPN herma að portúgalski knattspyrnustjórinn hafi áhuga á starfinu á Emirates.

Mourinho er 56 ára gamall en hefur verið atvinnulaus síðan að Manchester United rak hann fyrir tæpu ári síðan.  

Unai Emery er ennþá knattspyrnustjóri Arsenal og þrátt fyrir lélegt gengi er ekkert sem bendir til þess að hann verði rekinn á næstunni. Pressan minnkar þó ekkert fari Arsenal-liðinu ekki að ganga betur.

Jose Mourinho var mættur á leik Arsenal og Vitoria Guimaraes í Evrópudeildinni í síðustu viku. Það er búið að orða hann við mörg störf á síðustu mánuðum en hann hefur verið að dunda sér við það að greina fótboltaleiki í sjónvarpi.





Það þarf ekki að koma mörgum á óvart að þessi fyrrum stjóri Real Madrid og Internazionale sé nú orðinn óþolinmóður að bíða eftir næsta starfi.

Sæti Unai Emery er vissulega farið að hitna eftir aðeins einn sigur í síðustu fjórum deildarleikjum og liðið missti niður 2-0 forystu á móti Crystal Palace um síðustu helgi.

Jose Mourinho er sagður hafa áhuga á því að vinna titla með þremur úrvalsdeildarfélögum en hann hefur þegar unnið með Chelsea og Manchester United. Það gæti verið spennandi áskorun fyrir Portúgalann að koma Arsenal liðinu aftur í hóp þeirra bestu.

Arsenal er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir tíu leiki fjórum stigum frá fjórða sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×