Innlent

Breski herinn verður með viðveru á Íslandi í fyrsta sinn frá seinna stríði

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Eurofighter Typhoon orrustuþota breska flughersins.
Eurofighter Typhoon orrustuþota breska flughersins. Vísir/Getty
Breski flugherinn, RAF, mun koma til Íslands í annarri viku nóvembermánaðar og sinna loftrýmisgæslu, sem stendur vanalega í þrjár til fjórar vikur. Er það í fyrsta sinn sem Bretar hafa viðveru hér síðan þeir hertóku landið í seinni heimsstyrjöldinni.

Sendar verða orrustuþotur af gerðinni Typhoon, sem þýsku, ítölsku og spænsku loftherirnir nota einnig. Hinar bresku Typhoon vélar eru reglulega notaðar, bæði á Falklandseyjum og í Miðausturlöndum.

Bretar komu hingað þann 10. maí árið 1940 en rúmu ári síðar var samið um að Bandaríkin tækju að sér hervörsluna. Í þorskastríðunum sigldu herskip hennar hátignar inn í íslenska lögsögu til varnar breskum togurum og mættu þá íslenskum varðskipum.

Eftir að bandaríski herinn kvaddi landið 2006 hafa NATO-ríkin skipst á um að sinna loftrýmisgæslu við Ísland, og Bandaríkin langoftast. Árið 2008 var komið að Bretum en hætt var við það vegna Icesave-deilnanna og hryðjuverkalöggjafarinnar sem Bretar settu á Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×