Fótbolti

Stuðningsmenn liðs Balotelli lýsa yfir stuðningi við rasistana í Verona

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Balotelli er hér heitur eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leiknum.
Balotelli er hér heitur eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði í leiknum. vísir/getty
Það er margt rotið í ítalska boltanum og það gengur afar illa þar í landi að uppræta kynþáttahatur á völlum landsins. Enn ein ótrúlega yfirlýsingin þar í landi kom í dag.

Mario Balotelli, leikmaður Brescia, varð fyrir kynþáttaníði í leik gegn Verona á dögunum og hótaði að ganga af velli. Málið vakti að vonum mikla athygli.

Nú hafa harðkjarnastuðningsmenn Brescia sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við stuðningsmenn Verona en ekki Balotelli. Með hreinum ólíkindum.

„Ef Balotelli var ekki andlega undir það búinn að mæta Verona þá hefði hann átt að segja það og leyfa einhverjum harðari að taka sætið í liðinu,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Ultras-stuðningsmanna Brescia.

„Það hefði enginn kvartað yfir því. Þetta mál er enn ein árásin á Ultra-stuðningsmenn í landinu sem fjölmiðlar keyra áfram af krafti.“

Verona hefur ekki viljað taka á málinu af krafti og borgarstjóri Verona og forseti félagsins sagðist ekki hafa heyrt neitt kynþáttaníð. Einn stuðningsmaður fékk þó rúmlega 10 ára bann fyrir að segja að Balotelli yrði aldrei 100 prósent Ítali.

Kynþáttahatrið í stúkunni á Ítalíu hefur verið mikið í umræðunni í vetur enda eru leikmenn farnir að bregðast. Viðbrögð forráðamanna félaga hafa þó verið ótrúleg en þau ótrúlegustu komu líklega frá einum forseta sem sagði að það væri heiður fyrir hörundsdökka leikmenn að áhorfendur væru með apahljóð í þeirra garð. Það þýddi að þeir bæru virðingu fyrir leikmanninum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×