Enski boltinn

Solskjær: Við þurftum á svona frammistöðu að halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var skælbrosandi eftir leik.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var skælbrosandi eftir leik. Getty/Robbie Jay Barratt
Manchester United sýndi sínar bestu hliðar í 3-0 sigri á Partizan Belgrad í Evrópudeildinni í gærkvöldi sem er eitthvað sem stuðningsmenn félagsins hafa séð alltof lítið af á þessu tímabili. Knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær var líka ánægður með liðið.

„Við þurftum sigurinn en við þurfum líka á svona frammistöðu að halda þar sem strákarnir sóttu meira og reyndu að skora meira en eitt mark,“ sagði Ole Gunnar Solskjær við BT Sport eftir leik. Með sigrinum tryggði Manchester United sér sæti í 32 liða úrslitunum þótt að enn sé tveir leikir eftir í riðlinum.





„Við hefðum getað skorað fullt af mörkum til viðbótar en það var ánægjulegt og mikilvægt að fá stigin,“ sagði Solskjær.

„Það er búist við því að þú vinnir heimaleikinn þinn á móti svona liðum. Ég ber samt virðingu fyrir Partizan-liðinu því þeir gáfu okkur alvöru leik úti en hér heima eigum við að vinna þá,“ sagði Solskjær.





„Við áttum möguleika á að gera út um leikinn á fyrstu tíu mínútunum en þú færð mikið sjálfstraust við það að vera 2-0 yfir í hálfleik,“ sagði Solskjær.

Það voru samt ekki bara góðar fréttir af liðinu í gær því Scott McTominay, miðjumaðurinn öflugi, meiddist í leiknum. „Hann sagði að hann yrði í lagi en ég veit ekki. Vonandi getur hann náð leiknum á sunnudaginn,“ sagði Solskjær en Manchester United mætir þá Brighton.

„Við viljum vinna riðilinn en okkur hlakkar ekkert til að ferðast til Astana og þurfa síðan að mæta Aston Villa, Spurs og Man City í vikunni á eftir. Ég hvíli því kannski einhverja leikmenn í þeim leik,“ sagði Solskjær.

„Það er alltaf gott fyrir leikmenn að skora mörk og fá með því meira sjálfstraust. Við vitum hversu mikilvægur sunnudagsleikurinn er fyrir okkur af því að við horfum upp töfluna á fjögur efstu sætin,“ sagði Solskjær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×