Erlent

Hönd skosks ferðamanns fannst í maga hákarls

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hákarlinn er af tegund tígrisháfa. Mynd er úr safni.
Hákarlinn er af tegund tígrisháfa. Mynd er úr safni. Vísir/Getty
Líkamsleifar skosks ferðamanns, sem ekkert hefur spurst til síðan hann fór að snorkla við strendur frönsku eyjarinnar Réunion um helgina, hafa fundist í maga hákarls.

Í frétt breska dagblaðsins Guardian segir að maðurinn hafi verið 44 ára. Hann hvarf á laugardag og í kjölfarið voru fimm hákarlar veiddir í grennd við eyjuna. Hönd mannsins fannst við krufningu í maga eins hákarlsins, sem staðarmiðlar segja tígrisháf.

Borin voru kennsl á höndina með aðstoð eiginkonu mannsins, sem þekkti giftingarhring mannsins sem enn var á fingri hans. Ekki hefur verið hægt að skera úr um það hvort maðurinn hafi látist við árás hákarlsins eða drukknað og síðar verið étinn.

Eyjan er í Indlandshafi, austan við afrísku eyjuna Madagaskar, og er vinsæll áfangastaður brimbrettakappa. Ágangur hákarla varð þó til þess að brimbrettabrun var að hluta bannað á eyjunni. Tveir hafa þegar látist í hákarlaárás við Réunion það sem af er ári. Veiðimaður lést í janúar eftir að hákarl beit af honum annan fótlegginn og þá lést brimbrettakappi í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×